EN

Aflýst: Bjarni Frímann stjórnar AIŌN

Dagsetning Staðsetning Verð
22. okt. 2020 » 20:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Aflýst
  • Efnisskrá

    Carl Nielsen Maskerade, forleikur
    Bohuslav Martinů Konsert fyrir óbó og kammersveit
    Anna Þorvaldsdóttir AIŌN, sinfónía

  • Hljómsveitarstjóri

    Bjarni Frímann Bjarnason

  • Einleikari

    Julia Hantschel

Í ljósi samkomutakmarkanna vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur Sinfóníuhljómsveitar Íslands ákveðið að aflýsa tónleikunum. Miðahafar geta nýtt upphæðina á aðra tónleika hljómsveitarinnar eða fengið miðana endurgreidda í miðasölu Hörpu.

Á þessum áhugaverðu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands getur að heyra ferska og spennandi tónlist frá 20. og 21. öld sem lýkur með frumflutningi á sinfóníunni AIŌN eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld hljómsveitarinnar. Anna er í hópi fremstu samtímatónskálda á heimsvísu og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. AIŌN er ný sinfónía eftir Önnu en tónlistin á rætur í sinfónísku dansverki sem hún samdi ásamt Ernu Ómarsdóttur danshöfundi. Verkið var pantað af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar sem frumflutti það árið 2019 við mikla hrifningu. Gagnrýnandi Dagens Nyheter lýsti þeim flutningi sem „einskonar náttúruafli“ og Anna var nýlega tilnefnd til Prince Pierre de Monaco-verðlaunanna fyrir verkið, en meðal fyrri verðlaunahafa eru György Ligeti, Sofia Gubaidulina og Elliott Carter. 

Allt frá því að tjaldið reis á gamanóperuna Maskerade eftir Carl Nielsen árið 1906 hefur hún verið talin þjóðarópera Danmerkur, og laufléttur forleikurinn er meðal mest fluttu verka tónskáldsins. Bohuslav Martinů var eitt af leiðandi tónskáldum Tékklands á 20. öld og óbókonsert hans frá árinu 1955 er sérlega áheyrilegt verk, í stíl sem minnir nokkuð á tónmál Stravinskíjs. Einleikari í verkinu er þýski óbóleikarinn Julia Hantschel, sem hefur gegnt stöðu leiðandi óbóleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2018. Hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason, staðarhljómsveitarstjóri sveitarinnar.

Í ljósi hertra samkomutakmarkanna er miðaframboð á tónleikana takmarkað við 100 manns í hvert sóttvarnarhólf. Í það minnsta eitt autt sæti er á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Athugið að samkvæmt sóttvarnarlögum ber gestum skylda að vera með grímu á tónleikunum. Við biðjum tónleikagesti að gæta vel að sóttvarnarreglum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er á tónleikana. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.