EN

Daníel og Adams

Horndeild Sinfóníunnar stígur á svið og flytur fjörugt verk fyrir fjögur horn eftir Schumann

Dagsetning Staðsetning Verð
28. jan. 2021 » 20:00 - 21:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.400 – 5.700 kr.

Horndeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands er feykisterkur hópur frábærra tónlistarmanna og nú gefst fágætt tækifæri til að heyra þá í sviðsljósi einleikarans, í konsertstykki fyrir fjögur horn eftir Robert Schumann. Þetta er glæsileg tónsmíð sem sýnir hornaflokkinn í sínu allra besta ljósi.

Over Light Earth er tónsmíð eftir Daníel Bjarnason frá árinu 2012 sem hljómar nú á Íslandi í fyrsta sinn, innblásin af mikilfenglegum málverkum eftir Mark Rothko og Jackson Pollock. Verkið var samið að beiðni Fílharmóníusveitarinnar í Los Angeles og frumflutt þar undir stjórn John Adams, sem einmitt á sjálfur verk á efnisskrá kvöldsins. Shaker Loops frá árinu 1983 er eitt mest flutta verk Adams og eitt af meistaraverkum mínímalisma í tónlist, glæsilegt og þróttmikið verk þar sem strengjasveitin fær sannarlega að sýna hvað í henni býr.

Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hann hlaut nýverið ásamt hljómsveitinni tilnefningu til hinna virtu Grammy-verðlauna.

Miðasala á tónleikana er hafin
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 100 tónleikagesti í fjórum sóttvarnarhólfum í Eldborg. Í það minnsta tvö auð sæti eru á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum sem eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.