EN

Emilía og Brahms

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
18. mar. 2021 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin
Tónleikakynning í Hörpuhorni » 18. mar. kl. 18:00

Á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hljóma nokkur hrífandi meistaraverk franskrar og þýskrar tónlistar frá því um aldamótin 1900. Hugljúf Rómansa Saint-Saëns er eitt hans kunnasta verk en færri hafa heyrt um Cécile Chaminade. Hún naut mikilla vinsælda á sinni tíð, samdi yfir 400 verk á langri ævi og var fyrsta kventónskáldið sem hlaut riddaraorðu franska lýðveldisins. Concertino fyrir flautu var lykilverk á ferli hennar, samið fyrir einleikarakeppni Tónlistarháskólans í París árið 1902 og hefur verið fastur liður á efnisskrám flautuleikara allar götur síðan.

Efnisskrána ramma inn tvö verk, annað franskt en hitt þýskt, sem eiga það sameiginlegt að sækja innblástur í dansa og fjölröddun barokksins. Le tombeau de Couperin eftir Ravel er ljúf og litrík hylling til frönsku barokksvítunnar. 

Johannes Brahms lítur einnig um öxl í hinni stórfenglegu fjórðu sinfóníu sinni, sem var eitt síðasta hljómsveitarverk hans. Sinfónían ber vott um einlægan áhuga hans á tónlist barokksins, ekki síst verkum Bachs sem hann kynnti sér af mikilli gaumgæfni enda er bæði stef lokaþáttarins og útfærsla þess undir beinum áhrifum frá meistara Bach.

Emilía Rós Sigfúsdóttir hefur á undanförnum árum vakið mikla athygli fyrir frábæran flautuleik og hrífandi sviðsframkomu. Einleiksdiskur hennar, Portrait, hlaut lofsamlega umfjöllun í tímaritinu Gramophone, og einnig fékk hún fimm stjörnu krítík í Fréttablaðinu fyrir flutning á flautukonserti Iberts árið 2016. „Það var unaður að heyra hana leika“, sagði rýnir blaðsins af því tilefni.