EN

Föstudagsröðin

Fiðrildi og finnskir skógar

  • 17. mar. » 18:00 Norðurljós | Harpa 2.800 kr.
  • Kaupa miða

Kaija Saariaho er dáð um allan heim fyrir hljómsveitarverk sitt og óperur, en á verkaskrá hennar eru einnig sérlega áhrifamikil einleiksverk. Hún samdi Sept papillons eða Sjö fiðrildi meðan hún var við æfingar á Salzburgarhátíðinni árið 2000, og tónlistin hefur hrífandi yfirbragð hins hverfula og skammvinna. Sæunn Þorsteinsdóttir hefur fengið frábæra dóma í helstu blöðum Bandaríkjanna fyrir innlifaðan sellóleik sinn og hefur m.a. leikið kammertónlist með Itzhak Perlman og Mitsuko Uchida.

Sinfónía nr. 2 eftir Sibelius er ein hans glæsilegasta tónsmíð og nýtur verðskuldaðrar hylli um allan heim. 

Sibelius lýsti tónsmíðavinnu sinni eitt sinn svo að það væri „sem Guð almáttugur hafi fleygt niður mósaíkflísum úr gólfi himnaríkis og beðið mig að raða þeim eins og þær voru áður.“ Sinfónían hljómar hér í flutningi Daníels Bjarnasonar, staðarlistamanns SÍ, sem einnig er listrænn stjórnandi hinnar vinsælu Föstudagsraðar.

Sinfóníuhljómsveitin fagnar því að árið 2017 er öld liðin frá því að Finnland öðlaðist sjálfstæði. Af því tilefni verður finnsk tónlist áberandi á efnisskránni vorið 2017: verk eftir Sibelius og Saariaho hljóma á tvennum tónleikum (19. janúar og 17. mars) auk þess sem hljómsveitin flytur nýlegt verk eftir Kalevi Aho, sjöttu sinfóníu Sibeliusar og múmínálfarnir sívinsælu mæta á Tónsprotatónleika.