EN
  • Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar

Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar

Gestahljómsveit

Tryggðu þér sæti á besta verðinu - Veldu ferna eða fleiri tónleika á Regnbogakort með 20% afslætti.
  • 18. mar. 2018 » 19:30 Eldborg | Harpa 2.500 - 7.500 kr.
  • Kaupa miða

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt tónleika í tónleikahúsinu í Gautaborg í apríl síðastliðnum við frábærar undirtektir og nú er komið að Gautaborgarsinfóníunni að endurgjalda heimsóknina og leika í Hörpu. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferð hljómsveitarinnar um Norðurlönd og er þegar uppselt á tónleikana í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Osló enda dagskráin sérstaklega glæsileg.

Einleikari á tónleikunum er hin franska Hélène Grimaud sem hefur um áratuga skeið verið í hópi fremstu píanista heims. Hún hefur hljóðritað fyrir Deutsche Grammophon og hlotið öll helstu verðlaun klassíska tónlistarheimsins auk þess sem hún sinnir óvenjulegu áhugamáli sínu: að rækta úlfa og berjast fyrir velferð þeirra. Þetta er í fyrsta sinn sem Grimaud leikur á Íslandi og er það mikið tilhlökkunarefni. Á tónleikunum leikur Grimaud hinn undurfagra píanókonsert nr. 4 eftir Beethoven en einnig hljóma tvö meistarverk frá því um aldamótin 1900, svíta úr óperunni Der Rosenkavalier eftir Strauss og glæsileg frumraun Sibeliusar í sinfóníusmíðum.

Hljómsveitarstjóri er hinn finnski Santtu-Matias Rouvali, einn eftirsóttasti ungi stjórnandi heims um þessar mundir. Hann hefur tvívegi stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands með frábærum árangri en hann tók við stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gautaborg haustið 2017.

Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar er þjóðarhljómsveit Svíþjóðar og er ein fremsta sinfóníuhljómsveit í heimi. Hljómsveitin var stofnuð árið 1909 og heldur um 100 tónleika á hverju ári og hefur hljóðritað fjölda hljómdiska m.a. fyrir Deutsche Grammophon. Meðal fyrrum aðalstjórnenda hennar má nefna hinn heimskunna Gustavo Dudamel en hljómsveitin lék undir hans stjórn í fyrstu heimsókn sinni 2011.

Tónleikarnir eru hluti af dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands og geta áskrifendur hennar tryggt sér miða á tónleikana sem viðbót við áskriftarraðir sínar á hefðbundnu áskriftarverði.

Sækja tónleikaskrá