EN

Hetjuhljómkviðan

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
13. okt. 2016 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.200 kr.
  • Efnisskrá

    Þuríður Jónsdóttir Flow and Fusion
    Magnus Lindberg Fiðlukonsert nr. 1
    Ludwig van Beethoven Sinfónía nr. 3, Eroica

  • Hljómsveitarstjóri

    Daníel Bjarnason

  • Einleikari

    Jack Liebeck

Tónleikakynning » 13. okt. kl. 18:00

Hetjuhljómkviða Beethovens er eitt af tímamótaverkum tónlistarsögunnar, kynngimagnað verk sem sprengdi öll viðmið um það hvað sinfónía átti að vera. Innblásturinn að verkinu er sagður hafa verið sjálfur Napóleón, en þegar hann tók sér keisaranafnbót dró Beethoven tileinkunina til baka. Tónlistin er þó eftir sem áður innblásin af ímynd hetjunnar, kraftmikil og djörf.

Magnus Lindberg er eitt frægasta tónskáld Norðurlanda um þessar mundir. Hann hefur gegnt stöðu staðartónskálds við Fílharmóníuhljómsveitirnar í Lundúnum og New York, og hefur hlotið Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs. Fiðlukonsert hans frá árinu 2006 er glæsilegt verk þar sem gamall og nýr tími mætast; gagnrýnandi New York Times sagði um verkið að það væri „fullt af fegurð og spennu“.

Þegar Flow and Fusion eftir Þuríði Jónsdóttur var fyrst flutt á Íslandi sagði hún þetta um verk sitt: „Eitt af því sem ég hafði í huga þegar ég skrifaði Flow and Fusion voru ólíkir taumar flæðandi glóðheitrar bergkviku sem sameinuðust í einni iðandi hraunkvoðu, sem storknaði svo, varð að kletti … og endurómaði“. Þuríður er gjörn á að kanna nýja hljóðheima í verkum sínum. Mörg þeirra eru studd rafhljóðum, önnur innihalda leikræna tilburði, náttúruhljóð eða þátttöku áheyrenda.

Breski fiðluleikarinn Jack Liebeck hefur náð langt þrátt fyrir ungan aldur; hann hefur hlotið einróma lof fyrir hljómdiska sína hjá Sony Classical, og á milli þess sem hann ferðast heimshorna á milli tilað halda tónleika er hann prófessor í fiðluleik við Royal Academy of Music. Daníel Bjarnason er staðarlistamaður SÍ og nýtur sífellt aukinnar virðingar hér heima og erlendis fyrir tónsmíðar sínar og hljómsveitarstjórn. 

 

Sækja tónleikaskrá