EN

Inkinen stjórnar Bartók

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
23. jan. 2020 » 19:30 - 21:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr.

Breska tónskáldið Anna Clyne hefur vakið heimsathygli á síðustu árum fyrir tónlist sína. Tímaritið Time Out New York kallar verk hennar „stórfenglega hugmyndarík“ og hljómsveitarstjórinn Riccardo Muti segir þau koma „beint frá hjartanu“. Clyne var tilnefnd til Grammy-verðlauna árið 2015 og var staðartónskáld Chicago-sinfóníunnar um fimm ára skeið. Hér hljómar sprellfjörugur og áheyrilegur forleikur sem hún samdi fyrir Proms-tónlistarhátíðina árið 2013. Innblástur sækir hún í glaðværa danstónlist fyrri alda og eitt meginstef verksins er enskur sveitadans frá 17. öld.

Víólukonsert Williams Walton frá árinu 1929 er lykilverk sinnar gerðar og festi höfundinn í sessi sem eitt helsta tónskáld Bretlandseyja. „Hann er fæddur snillingur“ sagði einn gagnrýnandi eftir frumflutninginn. Konsert fyrir hljómsveit var eitt síðasta verkið sem Béla Bartók lauk við áður en hann lést árið 1945. Í konsertinum sýnir hann allar hliðar hljómsveitarinnar á glæsilegan hátt enda er þetta eitt dáðasta hljómsveitarverk 20. aldar.

„Hann er poppstjarnan meðal víólusnillinga okkar daga“, fullyrðir gagnrýnandi tónlistarvefsins Klassik.com um hinn þýska Nils Mönkemeyer, sem er tvímælalaust einn fremsti víóluleikari sinnar kynslóðar. Undanfarin ár hefur Mönkemeyer hlotið mikið lof fyrir hljómdiska sína hjá Sony Classical, meðal annars upptöku á víólukonserti Waltons. Sá diskur hlaut Þýsku gagnrýnendaverðlaunin 2018 og rýnir BBC Music jós lofi á „dásamlega tæran“ flutning sem væri til skiptis kraftmikill og angurvær.

Finnski hljómsveitarstjórinn Pietari Inkinen er íslenskum áheyrendum að góðu kunnur og hefur stýrt mörgum eftirminnilegum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Nýverið tók hann við stöðu aðalstjórnanda hjá Þýsku útvarpsfílharmóníunni auk þess sem hann stjórnar Fílharmóníusveitinni í Japan og er fastagestur við margar fremstu hljómsveitir heims.

Sækja tónleikaskrá