EN

Mozart og Kurt Weill – AFLÝST

Athugið að tónleikunum hefur verið aflýst vegna samkomubanns

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
19. mar. 2020 » 19:30 - 21:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Aflýst
  • Efnisskrá

    Ígor Stravinskíj Sinfóníur fyrir blásara
    Kurt Weill Fiðlukonsert
    W.A. Mozart Serenaða nr. 10, „Gran partita“

  • Hljómsveitarstjóri og klarínett

    Osmo Vänskä

  • Einleikari

    Erin Keefe

Sam­komu­bann hef­ur verið sett á hér­lend­is vegna kór­ónu­veirunn­ar og er öllum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands því aflýst til 13. apríl. Athugið að miðahafar geta fært aðgöngumiða sína á aðra tónleika hljómsveitarinnar síðar á þessu starfsári, henti það ekki er hægt að fá miðann endurgreiddan í miðasölu Hörpu. Nánar hér.

Þessir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða með nokkuð óvenjulegu sniði því að blásarasveit hljómsveitarinnar verður hér í sviðsljósinu. Ígor Stravinskíj samdi Sinfóníur fyrir blásara árið 1920 í minningu Debussys, sem hann sagði að hefði „ávallt sýnt mér og verkum mínum sanna vináttu“. Konsert fyrir fiðlu og blásara eftir Kurt Weill er eitt hans áhugaverðasta konsertverk, þar sem heyra má áhrif bæði frá djassi og tónlist Stravinskíjs.

Bandaríski fiðluleikarinn Erin Keefe er konsertmeistari Minnesota-hljómsveitarinnar og handhafi hinna virtu Avery Fisher-verðlauna. Hún hefur hlotið frábæra dóma fyrir flutning sinn á fiðlukonserti Weills bæði í Finnlandi og Bandaríkjunum og það er tilhlökkunarefni að heyra hana flytja þetta áhugaverða verk sem aðeins hefur einu sinni áður hljómað á Íslandi.

Hljómsveitarstjórinn Osmo Vänskä er Íslendingum að góðu kunnur enda var hann aðalstjórnandi hljómsveitarinnar um skeið og hefur verið heiðursstjórnandi hennar undanfarin ár. Vänskä er einnig frábær klarínettuleikari og hefur komið fram sem slíkur um allan heim. 

Á seinni hluta tónleikanna tekur hann sér sæti meðal blásaranna og leikur með í hinni guðdómlegu serenöðu eða kvöldlokku Mozarts fyrir 13 blásara og kontrabassa. Snilligáfa Mozarts reis sjaldan hærra en í þessu verki, en margir hlustendur þekkja einkum hæga þáttinn sem var notaður á ógleymanlegan hátt í kvikmyndinni Amadeus.