Dagsetning | Staðsetning | Verð |
---|---|---|
13. jan. 2023 » 18:00 » Föstudagur | Norðurljós | Harpa | 3.900 kr. |
-
Efnisskrá
Claude Debussy Estampes
Stephen Hough Partita
Franz Liszt Petrarca-sonnetta nr. 123
Franz Liszt Dante-sónata (úr Années de Pèlerinage)
-
Einleikari
Á þessum föstudagstónleikum í Norðurljósum fá áheyrendur að kynnast hinni hliðinni á Sir Stephen Hough, listamanni í samstarfi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, en kvöldið áður leikur hann píanókonsert nr. 3 eftir Beethoven með hljómsveitinni. Hér leikur Hough hins vegar nokkur hrífandi og virtúósísk einleiksverk úr ólíkum áttum. Tónleikunum lýkur svo á upplestri hans úr bók sinni Rough Ideas, sem er safn hugleiðinga um lífið og listina, en fáir listamenn samtímans eru viðlíka fjölhæfir og Hough sem auk píanóleiksins er bæði tónskáld, rithöfundur og listmálari.
Efnisskráin ber vitni um vítt áhugasvið einleikarans: Estampes eftir Debussy er einstaklega myndræn og litrík tónlist (en estampes merkir einmitt þrykk) sem magnar upp andrúmsloft fjarlægra slóða. En verkin tvö eftir Franz Liszt eru á hinn bóginn innblásin af bókmenntum, nánar tiltekið af verkum tveggja höfuðskálda Ítalíu, Dante og Petrarca. Á efnisskránni er einnig að finna eina af tónsmíðum Houghs sjálfs, Partítu, sem sækir innblástur jafnt til stórbrotinna trúarlegra verka fyrir orgel og tónlistar katalónska tónskáldsins Federico Mompou.
*Tónleikarnir eru u.þ.b. klukkustundarlangir án hlés.