EN

Sinfóníuhljómsveit Íslands
og Hallveig á RÚV

Dagsetning Staðsetning Verð
20. maí 2020 » 20:00 » Miðvikudagur Eldborg | Harpa Í beinni á RÚV
  • Efnisskrá

    W.A. Mozart Sinfónía nr. 29, 1. kafli
    W.A. Mozart Dove sono, úr Brúðkaupi Fígarós
    W.A. Mozart L’amerò, sarò constante, úr Il Rè pastore
    W.A. Mozart Non mi dir, úr Don Giovanni
    Jules Massenet Méditation, úr Thaïs
    Sigfús Einarsson Draumalandið
    Jón Nordal Hvert örstutt spor
    Sigfús Einarsson Gígjan
    Sigvaldi Kaldalóns Á Sprengisandi

  • Hljómsveitarstjóri

    Bjarni Frímann Bjarnason

  • Einsöngvari

    Hallveig Rúnarsdóttir

  • Einleikari

    Sigrún Eðvaldsdóttir

Sinfóníuhljómsveit Íslands er mætt aftur til leiks í Hörpu og sendir landsmönnum tónlistina í beinni útsendingu á RÚV. Hljómsveitin hefur fengið til liðs við sig úrvalslið íslenskra listamanna sem færa okkur sígildar tónlistarperlur.

Á þessum tónleikum syngur Hallveig Rúnarsdóttir með hljómsveitinni nokkur meistaraverk eftir Wolfgang Amadeus Mozart, meðal annars þrjár stórkostlegar aríur úr óperum. Einnig syngur Hallveig þrjú sígild íslensk sönglög sem eiga sinn sess í huga þjóðarinnar, auk þess sem Sigrún Eðvaldsdóttir leikur hina undurfögru hugleiðingu, Méditation, úr óperu Massenets, Thaïs.

Hallveig Rúnarsdóttir hefur á undanförnum árum sungið sig inn í hjörtu landsmanna með kristaltærri rödd sinni. Hún hefur farið með lykilhlutverk í óperum, meðal annars Don Giovanni í uppfærslu Íslensku óperunnar, og einnig vakið mikla hrifningu fyrir óratoríu- og ljóðasöng. Sérstaka athygli vakti blæbrigðaríkur flutningur hennar á Ave Mariu eftir Sigvalda Kaldalóns á tónleikunum Klassíkin okkar haustið 2018, þegar varla var þurrt auga í salnum. Hallveig var valin söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2018.

Sigrún Eðvaldsdóttir, konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er landsþekkt fyrir innblásinn og tjáningarríkan flutning. Hún hefur verið 1. konsertmeistari hljómsveitarinnar frá árinu 1998 en hefur einnig leikið einleik víða um heim auk þess sem hún hefur verið gestaleiðari hjá Konunglegu Óperunni í Kaupmannahöfn og hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Árósum.

Bjarni Frímann Bjarnason er aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur getið sér einkar gott orð fyrir innblásinn flutning sinn undanfarin misseri. Þar má meðal annars nefna fjölda tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni, en einnig flutning Íslensku óperunnar á Brúðkaupi Fígarós haustið 2019 sem fékk frábæra dóma. Bjarni Frímann var valinn flytjandi ársins 2019 á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars síðastliðnum.

Horfðu á Sinfóníuhljómsveit Íslands í beinni útsendingu á vef hljómsveitarinnar www.sinfonia.is, Facebook-síðu sveitarinnar og á RÚV, miðvikudagskvöldið 20. maí kl. 20:00. Tónleikunum er að vanda útvarpað í beinni á Rás 1.

Nánar um Sinfóníukvöld á RÚV.