EN

Tónleikar í Reykjanesbæ

Landshorna á milli

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
3. sep. 2019 » 19:30 » Þriðjudagur Hjómahöllinni í Reykjanesbæ Aðgangur ókeypis
  • Efnisskrá

    Edvard Grieg Pétur Gautur, valdir þættir
    W.A. Mozart Hornkonsert nr. 3
    Sigfús Einarsson Draumalandið
    Sigvaldi Kaldalóns Ave María
    Antonín Dvořák Söngur mánans úr Rusalka
    Giacomo Puccini Vissi d'arte úr Tosca
    Jean Sibelius Sinfónía nr. 5

  • Hljómsveitarstjóri

    Daníel Bjarnason

  • Einleikari

    Stefán Jón Bernharðsson

  • Einsöngvari

    Bylgja Dís Gunnarsdóttir

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tónleika fyrir opnu húsi í Hljómahöll Reykjanesbæjar þriðjudaginn 3. september í tilefni af 25 ára afmæli Reykjanesbæjar. Tónleikarnir eru jafnframt upptaktur að Ljósanótt sem haldin er hátíðlega í Reykjanesbæ dagana þar á eftir. Á tónleikunum flytur sópransöngkonan Bylgja Dís Gunnarsdóttir nokkur vinsæl sönglög og aríur með hljómsveitinni en hún hefur sungið víða, meðal annars aðalhlutverkið í Toscu í rómaðri sýningu í Keflavíkurkirkju árið 2011, og hún kennir við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Á tónleikunum hljóma einnig valdir kaflar úr vinsælli leikhústónlist Griegs við Pétur Gaut, meðal annars Morgunstemning og Í höll Dofrakonungs. Stefán Jón Bernharðsson, sem leiðir horndeild Sinfóníu-hljómsveitarinnar, leikur einleik í hornkonserti sem Mozart samdi á hátindi ferils síns, um svipað leyti og hann samdi óperuna Brúðkaup Fígarós. Tónleikunum lýkur með hinni stórfenglegu fimmtu sinfóníu Sibeliusar. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, aðalgestastjórnandi sinfóníuhljómsveitarinnar.

Fyrr um daginn mun strengjakvartett skipaður hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands leika fyrir heimilisfólk á Hrafnistu Nesvöllum og Hlévangi ásamt því að heimsækja skjólstæðinga Rauða krossins á Suðurnesjum.

Bjöllukór Tónlistaskóla Reykjanesbæjar leikur í anddyri Hljómahallarinnar frá kl. 19:00 og fram að tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar.

„Uppselt“ er á tónleikana en bæjarbúum bauðst að sækja boðsmiða á dögunum og kláruðust þeir allir.

Sækja tónleikaskrá