EN

Eins og að mæta í slagsmálaklúbb!

Pekka Kuusisto segir frá fiðlukonserti Daníels Bjarnasonar

„Verkið er mikil rússíbanareið, en jafnframt fallegt í hlutföllunum. Þyngdinni er einhvern veginn dreift á réttan hátt – og þess vegna flýtur það, í stað þess að sökkva,“ segir finnski fiðluleikarinn Pekka Kuusisto um fiðlukonsert Daníels Bjarnasonar, sem Pekka flytur með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn tónskáldsins 18. mars næstkomandi. Sinfóníuhljómsveit Íslands er tilnefnd ásamt Daníel Bjarnasyni til hinna virtu Grammy-verðlauna fyrir diskinn Concurrence og á tónleikunum hljómar, ásamt fiðlukonsertinum, tvö verk af hinum tilnefnda diski. 

Pekka hefur verið í fremstu röð meðal fiðluleikara heimsins um árabil, en sinnir ekki síður tilraunakenndri tónlist af ýmsu tagi, og bræðir saman spuna, þjóðlagatónlist og raftónlist. Pekka hefur verið tíður gestur á Íslandi síðustu ár, bæði til að spila á hefðbundnum tónleikum, en líka til vinna með félögum sínum í útgáfufélaginu Bedroom Community, sem hefur aðsetur í Breiðholti og starfar undir forystu Valgeirs Sigurðssonar tónskálds.

Örlagavaldurinn Iceland Airwaves

Það var einmitt í gegnum þann félagsskap sem Pekka kynntist Daníel Bjarnasyni tónskáldi. „Ég fór í afdrifaríka Íslandsferð 2011,“ segir Pekka. „Þá tók ég mér nokkurra mánaða hvíld frá tónleikahaldi, og fannst fyrirtakshugmynd að byrja á því að koma til Íslands, dvelja í viku í Gróðurhúsinu, stúdíói Valgeirs Sigurðssonar, og sjá kannski bara um kaffið fyrir þá sem kæmu þangað að taka upp. En dvölin hitti einmitt á Iceland Airwaves-hátíðina, svo ég endaði á því að skemmta mér glæpsamlega mikið með allskonar tónlistarmönnum og eignast marga nýja vini.“ Einn þeirra var Daníel Bjarnason, tónskáld. „Og við höfum verið í sambandi síðan.“ segir Pekka. „Ég man svo sem ekki hver átti hugmyndina að því að hann skrifaði fyrir mig konsert,“ bætir hann við, „en ég held að þetta hafi verið ein af þessum hugmyndum sem liggja í loftinu og margir fá á sama tíma. Ég er mjög hamingjusamur að þessi hugmynd varð að veruleika,“ segir Pekka, sem frumflutti konsertinn í ágúst 2017 með Fílharmóníusveit Los Angeles undir stjórn hins heimsfræga Gustavo Dudamel við frábærar undirtektir gagnrýnenda og almennings.

Fiðlukonsertinn í meðförum Pekka Kuusisto kom út á nýútgefnum diski Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Occurence, þar sem tónskáldið sjálft heldur um tónsprotann.

Dýrðlega ónáttúrulegur fiðluhljómur

Grunnurinn að fiðlukonsertinum var lagður þegar Pekka og Daníel ræddu málin og skiptust á hugmyndum. „Ég sagði Daníel frá dálitlu sem ég hafði tekið upp á – ég prófaði að stilla neðsta strenginn á fiðlunni niður um ferund frá því sem almennt tíðkast, frá G-i niður á D, svo bilið milli tveggja neðstu strengjanna á hljóðfærinu er ekki lengur fimmund, heldur heil áttund. Þetta gerir það að verkum að fiðlan gefur frá sér ævintýralegt urr – það er einhver skemmtilega óheilbrigður hljómur í því. Það kom mér samt á óvart þegar ég fékk nóturnar að konsertinum að hann væri allur skrifaður í þessari stillingu! Það var auðvitað mjög skemmtilegt – en þegar maður hefur spilað sama tónstigann með sömu fingrasetningu síðan maður var þriggja ára gamall er mikið sjokk að þurfa nú skyndilega að stökkva með höndina á allt annan stað á fingrabrettinu!“ segir Pekka og hlær. „En þetta er þess virði. Allt hljóðfærið ómar á nýjan hátt. Það er eitthvað dýrðlega ónáttúrulegt við það – og Daníel nýtir alla möguleika þess út í ystu æsar.“

Myndband

Spunnið, blístrað, sungið

Pekka hefur líka frjálsar hendur á köflum í verkinu, því Daníel gerir ráð fyrir því að einleikarinn spinni kadensurnar sjálfur – rétt eins og tíðkaðist gjarnan í konsertum klassíska tímans. „Ég er afar hamingjusamur með það,“ segir Pekka, „því þetta er hluti starfs fiðluleikarans sem hefur verið vanrækt í meira en öld. Það gleður mig að tónskáld sem býr yfir sterkri rödd og sem margir hlusta á skuli kjósa að veita spunanum slíkan sess í svo veigamiklu verki.“ Pekka segir sínar kadensur síbreytilegar. „Síðan verkið var frumflutt hef ég tekið ýmsa sénsa. Ég hef líka leikið mér að því að nýta aðrar hljóðuppsprettur en fiðluna – ég syng með eða blístra. Þetta eru sennilega áhrif úr þjóðlagatónlistinni, sem ég nýti líka í raftónlist. Það eykur fjölbreytnina og gefur færi á litríkri tjáningu.“

Skilur ekki sjálfan sig eftir baksviðs

Pekka segir verkið líka hafa komið til hans á hárréttum tíma í lífinu. „Ég hafði nýlega unnið að sviðsverki í Þjóðleikhúsinu í Helsinki sem var byggt á skáldsögu frá áttunda áratugnum. Æfingatíminn var þrír og hálfur mánuður, og á þeim tíma hurfum við algjörlega frá texta bókarinnar, losuðum okkur við allt sem við lögðum upp með – líka tónlistina – og sömdum allt upp á nýtt. Við leyfðum okkur að skapa eitthvað sem byggðist algjörlega á hver við værum og hvar við værum stödd í lífinu. Og leikstjórinn skýrði það út fyrir mér að þetta væri það sem hans starf snerist um – að taka fyrirbæri úr lífi sín og nýta sem eldsneyti í listrænt starf. Ég hugsaði strax: Þetta er stórkostlegt. Ég hef farið í fiðlutíma allt mitt líf og látið segja mér að nóturnar geymi allar nauðsynlegar upplýsingar, og að maður eigi ekki að trana sjálfum sér fram í flutningi tónlistarinnar. Og þannig vinnur maður þegar maður spilar fiðlukonsert eftir Beethoven – maður fjarlægir sjálfan sig svolítið. En svo kemur svona verk eins og fiðlukonsert Daníels fram á sjónarsviðið, tekur í hnakkadrambið á manni og tuskar mann til – það krefst þess af manni að maður sé maður sjálfur, og taki mikla áhættu. Maður getur ekki skilið sjálfan sig og persónuleika sinn eftir baksviðs áður en þetta verk er flutt. Það nær til tilfinninga manns og hrærir í þeim – kýlir mann í andlitið og fær mann til að bregðast við. Það er stórfenglegt, mér finnst það bæði frelsandi og endurnærandi – svolítið eins og að fara í slagsmálaklúbb. Og ég vildi óska að fólkið í okkar listgrein gerði meira af þessu!“

Fiðlukonsertinn verður frumfluttur á Íslandi á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg þann 18. mars næstkomandi. Hér má lesa nánar um tónleikana.