Sinfónían og Daníel tilnefnd til Grammy-verðlauna
Sinfóníuhljómsveit Íslands og Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri eru tilnefnd til Grammy-verðlauna í flokknum Besti hljómsveitarflutningur (Best orchestral performance) fyrir diskinn Concurrence sem gefinn var út af bandarísku útgáfunni Sono Luminus. Á disknum flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands, undir stjórn Daníels Bjarnasonar, ný verk eftir fjögur íslensk tónskáld: Önnu Þorvaldsdóttur, Hauk Tómasson, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Pál Ragnar Pálsson. Einleikarar með hljómsveitinni eru Sæunn Þorsteinsdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson.
Diskurinn fæst í 12 tónum og Smekkleysu þar sem hann fæst einnig í netverslun.
Daníel Bjarnason stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands í upptökunum en hann gegnir stöðu aðalgestastjórnanda hljómsveitarinnar.
Diskurinn Concurrence er annar í röðinni af þremur í samstarfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og bandarísku útgáfunnar Sono Luminus, þar sem hljómsveitin flytur alls 14 ný íslensk hljómsveitarverk undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Lokadiskur þeirrar útgáfuraðar, Occurrence, er væntanlegur í janúar 2021.
Diskurinn Recurrence kom út árið 2018, Concurrence árið 2019 og er þriðji og síðasti diskurinn í röðinni er væntanlegur í janúar 2021.
Plöturnar eru teknar upp í hringómi (e. surround sound) og í upptökunum var ný uppstilling á hljómsveitinni sérstaklega valin fyrir hvert einasta verk sem best hentaði hljóðheimi þess. Upplifunin verður því sérlega áhrifarík þar sem tónlistin er tekin upp í einskonar þrívídd og hlustandinn heyrir tónlistina allt um kring. Upptökustjóri var Grammy-verðlaunahafinn Daniel Shores og hljóðmeistari var Dan Merceruio.
Concurrence hefur fengið frábæra dóma og var valin á árslista margra helstu blaða og tímarita heims. The New York Times valdi Concurrence eina af athyglisverðustu klassísku útgáfum ársins 2019 og bandaríska útvarpsstöðin NPR valdi hann sömuleiðis einn af tíu bestu útgáfum ársins. Í umsögn þeirra segir meðal annars:
Eyríkið Ísland er, þrátt fyrir smæð sína, risi á sviði klassískrar tónlistar.
Á disknum Concurrence má meðal annars heyra Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Fimm hljómdiskar eru tilnefndir til Grammy-verðlauna í þessum flokki. Tilnefningarnar eru ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar, Fílharmóníusveitin í Los Angeles undir stjórn Gustavo Dudamel, Sinfóníuhljómsveitin í Oregon undir stjórn Carlos Kalmar, Finnska útvarpshljómsveitin undir stjórn Hannu Lintu og Sinfóníuhljómsveitin í San Francisco undir stjórn Michael Tilson Thomas.
Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur einu sinni áður verið tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir besta hljómsveitarflutning, árið 2009. Þá var tilnefndur geisladiskur hljómsveitarinnar með verkum eftir franska tónskáldið Vincent d´Indy undir stjórn Rumon Gamba, sem kom út hjá bresku Chandos-útgáfunni.