EN

Grammy-veisla

Pekka Kuusisto leikur fiðlukonsert Daníels Bjarnasonar

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
18. mar. 2021 » 20:00 - 21:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.800 kr.

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Daníel Bjarnason voru tilnefnd til til hinna virtu Grammy-verðlauna í flokknum Besti hljómsveitarflutningur (Best Orchestral Performance) fyrir diskinn Concurrence. 

Í tilefni af því blæs hljómsveitin til sérstakrar veislu þar sem hún flytur tónlist af hinum tilnefnda diski undir stjórn Daníels. Á tónleikunum veður einnig fluttur fiðlukonsert Daníels sem er að finna á Occurrence, nýjasta disknum í þriggja diska röð með nýrri íslenskri tónlist sem gefin er út af bandarísku útgáfunni Sono Luminus. Verkið hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og sama gildir um innblásinn leik finnska fiðlusnillingsins Pekka Kuusisto sem fer svo sannarlega ótroðnar slóðir, en verkið er samið sérstaklega með hann í huga. Fiðlukonsertinn var saminn fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníuhljómsveitina í Los Angeles, sem frumflutti verkið árið 2017 á útisviðinu Hollywood Bowl fyrir yfir 15 þúsund manns.

Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur var samið fyrir Fílharmóníuhljómsveitina í New York og frumflutt þar í apríl 2019 undir stjórn Esa-Pekka Salonen. Verkið hlaut frábæra dóma; ekki leið á löngu þar til Fílharmóníusveit Berlínar flutti Metacosmos undir stjórn Alans Gilbert og Sinfóníuhljómsveit San Francisco lék verkið undir stjórn Esa-Pekka Salonen. Anna gegnir nú stöðu staðartónskálds hjá sinfóníuhjómsveit Íslands.

Á tónleikunum hljómar einnig verk Maríu Huldar Markan Sigfúsdóttir, Oceans, en María er meðal eftirtektarverðustu tónskálda sinnar kynslóðar á Íslandi. Hún hefur komið víða við í tónlistinni, verk hennar hafa á liðnum árum verið flutt af hljómsveitum á borð við Nordic Affect og London Sinfonietta og hefur hún hefur starfað með listamönnum úr ýmsum greinum en auk þess notið alþjóðlegrar velgengni um árabil með hljómsveit sinni amiinu. Verkið Oceans er innblásið af ástandi úthafanna, einkum af plastinu sem velkist þar um og myndar stórar eyjar, fullar af leikföngum og nytjamunum horfinna tíma sem aldrei eyðast.

Tónleikunum er útvarpað beint á Rás 1.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 200 tónleikagesti í fjórum sóttvarnarhólfum í Eldborg. Í það minnsta eitt autt sæti er á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum sem eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.