EN

Ungsveitin leikur Berlioz

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
24. sep. 2023 » 17:00 » Sunnudagur Eldborg | Harpa 3.000 - 5.300 kr.

Draumórasinfónía Hectors Berlioz er eitt af lykilverkunum í tónlist rómantíska tímans; ævintýraleg frásögn í tónum
af ástarraunum ungs skálds sem hverfur inn í veröld trylltra draumóra með geigvænlegum afleiðingum. Verkið byggir á reynslu tónskáldsins sjálfs af ást og hugarvíli, en hann var 23 ára þegar hann hófst handa við það. Með Draumórasinfóníunni var brotið blað í tónlistarsögunni, því svo nákvæm, sjálfsævisöguleg atburðarás hafði aldrei áður verið rakin í sinfónísku verki af slíkri stærðargráðu.

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands hélt sína fyrstu tónleika haustið 2009 í Háskólabíói og hefur síðan vakið verðskuldaða athygli en sveitin hlaut viðurkenninguna „Bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016. Tæplega hundrað ungmenni úr tónlistarskólum landsins hafa verið þátttakendur ár hvert á hljómsveitarnámskeiði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og náð undraverðum árangri undir leiðsögn framúrskarandi hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra. Eliza Reid forsetafrú tók að sér hlutverk verndara Ungsveitarinnar á tíu ára afmælisári sveitarinnar árið 2019.

Í Ungsveitinni eru gerðar strangar kröfur um faglega frammistöðu enda hafa tónleikar Ungsveitarinnar vakið eftirtekt fyrir samstilltan flutning og magnaða túlkun. Hljómsveitin í ár er skipuð tæplega 100 hljóðfæraleikurum en þátttakendur voru valdir úr stórum hópi ungmenna sem léku um sæti í sveitinni með prufuspili. 

Sækja tónleikaskrá