EN

Föstudagsröðin – AFLÝST

Athugið að tónleikunum hefur verið aflýst vegna samkomubanns

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
20. mar. 2020 » 18:00 - 19:00 Norðurljós | Harpa 3.100 kr. Aflýst
  • Efnisskrá

    Arnold Schönberg Verklärte Nacht (Uppljómuð nótt)
    Béla Bartók Tónlist fyrir strengi, slagverk og selestu

  • Hljómsveitarstjóri

    Bjarni Frímann Bjarnason

  • Strengjasveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Sam­komu­bann hef­ur verið sett á hér­lend­is vegna kór­ónu­veirunn­ar og er öllum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands því aflýst til 13. apríl. Athugið að miðahafar geta fært aðgöngumiða sína á aðra tónleika hljómsveitarinnar síðar á þessu starfsári, henti það ekki er hægt að fá miðann endurgreiddan í miðasölu Hörpu. Nánar hér.

Strengjasveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands er í sviðsljósinu á þessum tónleikum Föstudagsraðarinnar þar sem hljóma tvö meistaraverk frá fyrri hluta 20. aldar. Arnold Schönberg samdi meistaraverkið Verklärte Nacht á aðeins þremur vikum og byggði á samnefndu ljóði þar sem segir frá ungum elskendum á skógargöngu að kvöldlagi. Þetta glæsilega og tilfinningaþrungna verk er löngu komið í hóp helstu meistaraverka tónlistarinnar frá árunum í kringum aldamótin 1900. Í fyrstu fékk það þó dræmar viðtökur. Einn starfsbróðir Schönbergs sagði skömmu eftir að verkið varð til að það væri engu líkara en tónskáldið hefði „tekið handritið að Tristan og Ísold og klínt blekinu út um allt meðan það var enn blautt“.

Tónlist fyrir strengi, slagverk og selestu er lykilverk á ferli Béla Bartóks, samið árið 1936. Það hefur verið kallað „ein fullkomnasta tónsmíð sem Bartók samdi“ og sagt að það spanni allar þær mótsagnir sem gera list hans svo hrífandi: „það er frumstætt og fágað, villt og hamið, kyrrlátt og ógnvekjandi, alvarlegt og spaugilegt“. Bjarni Frímann Bjarnason hefur vakið mikla eftirtekt fyrir frábæra hljómsveitarstjórn bæði hjá Sinfóníunni og Íslensku óperunni, þar sem hann gegnir stöðu tónlistarstjóra. Á þessum tónleikum er hann á heimavelli í tónlist sem er honum einkar hjartfólgin.

Tónleikar Föstudagsraðarinnar í Norðurljósum taka um klukkustund og eru fullkominn upptaktur að skemmtilegri helgi.