EN

Hellekant og Bjarni Frímann (áður: Von Otter og Tortelier)

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
21. mar. 2019 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.800 kr.
Tónleikakynning » 21. mar. kl. 18:00

Því miður þurftu bæði Anne Sofie von Otter og Yan Pascal Tortelier að aflýsa þátttöku sinni á tónleikunum vegna forfalla. Charlotte Hellekant og Bjarni Frímann hlaupa í skarðið og verður efnisskráin óbreytt frá því sem auglýst hafði verið. 

Charlotte Hellekant er meðal fremstu söngkvenna Norðurlanda og hefur um áratuga skeið komið fram víða um heim. Hún hefur meðal annars sungið við Metropolitan-óperuna í New York, Parísaróperuna og komið fram á Glyndbourne-óperuhátíðinni í Englandi. Meðal helstu hlutverka hennar eru Charlotte í Werther, sem hún hefur sungið m.a. við Deutsche Oper í Berlín, og Carmen sem hún hefur sungið við Konunglegu óperuna í Stokkhólmi. 

Á þessum tónleikum flytur hún heillandi útsetningar Josephs Canteloube á frönskum þjóðlögum sem eru hans kunnasta verk og hefur náð miklum vinsældum í flutningi söngkvenna á borð við Victoriu de los Angeles og Kiri Te Kanawa.

Tónleikarnir hefjast með sprellfjörugri útsetningu Atla Heimis Sveinssonar fyrir klarínett og hljómsveit á hinu vinsæla Rondo alla Turca eftir Mozart og er einleikari í verkinu Einar Jóhannesson klarínettleikari. Eftir hlé hljómar eina sinfónía Bizets, meistaraverk sem hann samdi aðeins 17 ára gamall. Enn í dag er þetta ein frægasta sinfónía fransks tónskálds og vitnisburður um ótvíræða snilligáfu hans. Hljómsveitarstjórinn Bjarni Frímann Bjarnason var ráðinn aðstoðarstjórnandi hljómsveitarinnar haustið 2018 og verða þetta fyrstu áskriftartónleikar hans með hljómsveitinni.

Sækja tónleikaskrá