EN

Yo-Yo Ma og Kathryn Stott

Dúó-tónleikar

Dagsetning Staðsetning Verð
26. okt. 2024 » 20:00 » Laugardagur Eldborg | Harpa 4.900 - 13.900 kr.
  • Efnisskrá

    Gabriel Fauré Berceuse
    Antonín Dvořák Songs My Mother Taught Me
    Sérgio Assad Menino
    Nadia Boulanger Cantique
    Gabriel Fauré Papillon
    Dmitríj Shostakovitsj Sónata fyrir selló og píanó í d-moll
    Arvo Pärt Spiegel im Spiegel
    César Franck Sónata í A-dúr fyrir fiðlu og píanó

  • Flytjendur

    Yo-Yo Ma selló
    Kathryn Stott píanó

Yo-Yo Ma er einn þekktasti sellóleikari samtímans. Hann hefur á löngum og glæsilegum ferli hrifið áheyrendur um allan heim með heillandi túlkun sinni, óaðfinnanlegri tækni og miklum persónutöfrum, auk hinnar brennandi ástríðu sem hann hefur fyrir tónlistinni og mætti hennar til að koma góðu til leiðar í heiminum. Eftir tónleika Ma með Sinfóníuhljómsveit Íslands gefst áheyrendum hér einstakt tækifæri til að kynnast hinni hliðinni á þessum einstaka tónlistarmanni þar sem hann leikur litríka og hrífandi efnisskrá fyrir selló og píanó með samstarfskonu sinni til margra ára, Kathryn Stott. Stott er þekkt um allan heim sem einn hugmyndaríkasti og fjölhæfasti píanóleikari Breta, og hefur Washington Post haft á orði að hún sé „jafnoki Yo-Yo Ma og leiki á píanóið með eftirtektarverðum sérkennum.” Yo-Yo Ma og Kathryn Stott hafa átt farsælt samstarf um árabil, leikið saman á fjölda tónleika og sent frá sér verðlaunaðar hljóðritanir.

Þessir tónleikar eru hluti af yfirstandandi tónleikaferðalagi þeirra þar sem þau leika í mörgum af helstu tónleikasölum heims, til dæmis í Barbican Centre, Konserthuset í Stokkhólmi, Fílharmóníunni í Berlín, Herkulessal í München og Fílharmóníunni í París. Þau hafa einnig haldið tónleika í þekktustu tónleikahúsum heims eins og Walt Disney Hall í Los Angeles og Carnegie Hall í New York.

Verkin á efnisskrá þessa óviðjafnanlega dúós spanna allt frá nítjándu öldinni til þeirrar tuttugustu og fyrstu. Þar er meðal annars að finna hina tilfinningaþrungnu sellósónötu Dmitríj Shostakovitsj og hina hrífandi fögru fiðlusónötu Césars Franck leikna á selló. Þá hljóma nokkur yndisfögur og íhugul smáverk í útsetningum fyrir selló og píanó.

*Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.

Sækja tónleikaskrá