EN

Aðventutónleikar Sinfóníunnar á RÚV

Hátíðlegir aðventutónleikar í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV

Dagsetning Staðsetning Verð
10. des. 2020 » 20:00 - 21:00 Eldborg | Harpa Í beinni á RÚV
HorfaHlusta

Sinfóníuhljómsveit Íslands býður upp á hátíðlega aðventutónleika í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV og Rás 1 fimmtudaginn 10. desember. Á tónleikunum flytur hljómsveitin fjörugan konsert fyrir tvær fiðlur eftir Vivaldi, hátíðlegar óperuaríur eftir Händel og sinfóníu nr. 25 eftir Mozart. 

Sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir þreytir nú frumraun sína með hljómsveitinn, en hún hefur vakið feykilega athygli undanfarin ár fyrir glæsilegan og fágaðan söng. Álfheiður er þegar farin að hasla sér völl á óperusviðinu, hefur m.a. sungið í Staatsoper Berlín og við óperuhúsið í Basel, þar sem hún hlaut einróma lof gagnrýnenda. 

Hjónin Vera Panitch og Páll Palomares leika bæði í Sinfóníuhljómsveit Íslands og eru meðal fremstu fiðluleikara landsins. Páll lék eftirminnilegan einleik á tónleikunum Klassíkin okkar í september og Vera vann til verðlauna í kammertónlistarkeppni Danska útvarpsins nú fyrir skemmstu.  

Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, sem er löngu orðinn landskunnur fyrir tónsmíðar sínar og hljómsveitarstjórn og hlaut nýverið ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands tilnefningu til hinna virtu Grammy-verðlauna. 

Í ljósi núgildandi samkomutakmarkana verður ekki hægt að bjóða gestum í sal en tónleikarnir verða í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV ásamt því að þeim verður útvarpað í beinni á Rás 1. 

Fáðu senda áminningu þegar tónleikarnir hefjast.