EN

Dansandi sinfónía

Föstudagsröðin

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
  • 29. mar. 2019 » 18:00 Norðurljós | Harpa 3.000 kr.
  • Efnisskrá

    Bergrún Snæbjörnsdóttir Skin In
    Ludwig van Beethoven Sinfónía nr. 7

  • Hljómsveitarstjóri

    Bjarni Frímann Bjarnason

Bergrún Snæbjörnsdóttir hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum fyrir verk sín, sem hafa meðal annars hljómað í flutningi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Ósló og International Contemporary Ensemble (ICE) í New York. Hún hefur einnig starfað með Sigur Rós og komið fram sem hornleikari með Björk Guðmundsdóttur, auk þess sem hún lauk meistaraprófi í tónsmíðum frá Mills College í Kaliforníu árið 2017. Á síðari föstudagstónleikum vetrarins hljómar verkið Skin In eftir Bergrúnu, pantað af Önnu Þorvaldsdóttur og Sinfóníuhljómsveit Íslands og er verkið sérstaklega samið fyrir hljóðfæraleikara úr hljómsveitinni. 

Sjöunda sinfónía Beethovens er eftirlætisverk tónlistarunnenda um allan heim. Tónlistin iðar af fjöri og kátínu, og hefur dansandi eiginleika. Þegar verkið var frumflutt í Vínarborg árið 1813 þurfti að endurtaka annan kaflann vegna glimrandi undirtekta áheyrenda. Þessi þáttur er einmitt dæmi um hvernig Beethoven gat skapað hrífandi heim úr einföldum efniviði, og tónlistin hefur allar götur síðan verið meðal þess dáðasta sem Beethoven festi á blað um ævina. Á þessum klukkustundarlöngu föstudagstónleikum er það Bjarni Frímann Bjarnason, aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem heldur um tónsprotann. 

Tónleikar Föstudagsraðarinnar eru um klukkustundarlangir þar sem teflt er saman hljómsveitarverki og einleiksverki. Tilvalinn endapunktur á góðri vinnuviku eða frábær upptaktur að skemmtilegu föstudagskvöldi.