EN

Eva stjórnar Strauss

Heimsfræga sópransöngkonan Camilla Nylund syngur Strauss

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
11. nóv. 2021 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 – 8.500 kr.
Tónleikakynning » 11. nóv. kl. 18:00

Vinsamlegast athugið að á tónleikunum er ekki gerð krafa um að gestir framvísi neikvæðu hraðprófi. Í samræmi við núgildandi sóttvarnareglur verður Eldborg skipt upp í fjögur sóttvarnahólf og er grímuskylda á tónleikunum.

Richard Strauss var eitt merkasta tónskáld síðrómantíkur. Starfsárið 2021–22 verður tónlist hans áberandi á efnisskrám Sinfóníuhljómsveitarinnar og mun Eva Ollikainen stjórna alls sjö verkum hans á áskriftartónleikum. Á þessum tónleikum hljóma þrjú þeirra, afar ólíkir ópusar sem spanna meira en hálfa öld. Tónaljóðið sem Strauss samdi um hrekkjalóminn Ugluspegil framkallar bros við hverja hlustun, en í svítu úr óperunni Rósarriddaranum hljóma innilegir ástarsöngvar í bland við líflega Vínarvalsa.

Finnska sópransöngkonan Camilla Nylund er ein sú fremsta á sínu sviði á heimsvísu. Hún hefur sungið við öll helstu óperuhús heims og gagnrýnendur eru á einu máli um að raddfegurð hennar og túlkun séu engu lík. „Hreinasta opinberun,“ sagði einn þýskur gagnrýnandi og annar dásamaði hina „gullnu rödd“ hennar. Á Íslandi syngur Nylund Fjóra síðustu söngva, verk sem Strauss lauk við undir lok ævinnar, rúinn trausti eftir hremmingar heimsstyrjaldarinnar síðari. Þetta er einhver fegursta kveðja til jarðlífsins sem nokkru sinni hefur verið fest á blað.

Daníel Bjarnason samdi nýjasta hljómsveitarverk sitt fyrir aldarafmæli Fílharmóníusveitarinnar í Los Angeles og var það frumflutt þar við mikinn fögnuð í nóvember 2019. Daníel sækir innblástur í geimferðir sjöunda áratugarins og þá sýn sem blasir við þeim sem skoða jarðarkringluna utan úr geimnum. Verkið er ætlað þremur stjórnendum og við frumflutninginn héldu um taumana núverandi og fyrrverandi aðalstjórnendur sveitarinnar í Los Angeles, þeir Gustavo Dudamel, Esa-Pekka Salonen og Zubin Mehta. Í Eldborg mundar Eva Ollikainen tónsprotann ásamt tónskáldinu sjálfu og Kornilios Michailidis.

Sækja tónleikaskrá