EN

Hádegistónleikar í Eldborg

Hitað upp fyrir Þýskaland

Tryggðu þér sæti á besta verðinu. Veldu ferna eða fleiri tónleika á Regnbogakort með 20% afslætti
  • 31. okt. 2019 » 11:45 Eldborg | Harpa Aðgangur ókeypis

Á tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitar Íslands til Þýskalands og Austurríkis í nóvember 2019 verða leiknar ólíkar efnisskrár í hinum ýmsu borgum. Tónleikasalirnir eru með þeim fremstu í viðkomandi löndum: í Großes Festspielhaus í Salzburg, Konzerthaus í Berlín og Herkulessaal í München. Á þessum hádegistónleikum verða flutt verk sem hljóma í sumum þessara borga, en önnur verk á efnisskránni verða flutt viku síðar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á rauðum áskriftartónleikum.

Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur er á góðri leið með að verða eitt mest flutta íslenska hljómsveitarverk síðari áratuga. Það hefur meðal annars hljómað í Elbfílharmóníunni í Hamborg, Royal Festival Hall í Lundúnum og Symphony Hall í Boston; gagnrýnendur erlendra blaða kalla það „meistaraverk“ og það er meðal efnis á portrettdiski Önnu sem Deutsche Grammophon gaf út.

Fjórða sinfónía Tsjajkovskíjs er eitt af hinum glæsilegu hljómsveitarverkum rússneska meistarans, spennuþrungið verk þar sem örlög listamannsins eru í forgrunni. Tsjajkovskíj samdi sinfóníuna á hátindi ferils síns, um sama leyti og óperuna Evgení Onégin, og er því ekki að furða að hún sé meðal mest fluttu verka hans um allan heim. 

Daníel Bjarnason stjórnar tónleikaferð Sinfóníu-hljómsveitarinnar til Þýskalands og Austurríkis. Hann hefur hlotið mikla athygli undanfarin ár bæði fyrir tónlist sína og hljómsveitarstjórn, og hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin í janúar 2019. Daníel tók við stöðu aðalgestastjórnanda hljómsveitarinnar í upphafi starfsársins.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.