EN

Hádegistónleikar í Eldborg

Hitað upp fyrir Þýskaland og Austurríki

Tryggðu þér sæti á besta verðinu. Veldu ferna eða fleiri tónleika á Regnbogakort með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
31. okt. 2019 » 11:45 - 13:00 Eldborg | Harpa Aðgangur ókeypis

Á þessum hádegistónleikum í Eldborg flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands tvö verk sem hljóma í tónleikaferð hljómsveitarinnar til Þýskalands og Austurríkis í nóvember 2019. Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur er á góðri leið með að verða eitt mest flutta íslenska hljómsveitarverk síðari áratuga. Það hefur meðal annars hljómað í Elbfílharmóníunni í Hamborg, Royal Festival Hall í Lundúnum og Symphony Hall í Boston; gagnrýnendur erlendra blaða kalla það „meistaraverk“ og það er meðal efnis á portrettdiski Önnu sem Deutsche Grammophon gaf út.

Fjórða sinfónía Tsjajkovskíjs er eitt af hinum glæsilegu hljómsveitarverkum rússneska meistarans, spennuþrungið verk þar sem örlög listamannsins eru í forgrunni. Tsjajkovskíj samdi sinfóníuna á hátindi ferils síns, um sama leyti og óperuna Evgení Onégin, og er því ekki að furða að hún sé meðal mest fluttu verka hans um allan heim.

Á tónleikaferð hljómsveitarinnar til Þýskalands og Austurríkis verða leiknar ólíkar efnisskrár, en önnur verk á efnisskránni verða flutt viku síðar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 7. og 8. nóvember. Daníel Bjarnason er hljómsveitarstjóri í ferðinni en hljómsveitin heldur tónleika í fremstu tónleikasölum í viðkomandi löndum: í Großes Festspielhaus í Salzburg, Konzerthaus í Berlín og Herkulessaal í München. Daníel hefur hlotið mikla athygli undanfarin ár bæði fyrir tónlist sína og hljómsveitarstjórn. Nýjasta verk sitt samdi Daníel fyrir Fílharmóníusveit Los Angeles í tilefni 100 ára afmælis hennar og var það frumflutt á hátíðartónleikum í Walt Disney Concert Hall í síðustu viku. Daníel var á árunum 2015–2018 staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gegnir nú stöðu aðalgestastjórnanda.

Aðgangur er ókeypis – ekki þarf að sækja aðgangsmiða þar sem sætaval er frjálst. Allir eru velkomnir á þessa tónlistarstund í hádeginu.

Sækja tónleikaskrá