EN

Hallveig syngur Mozart – AFLÝST

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
14. maí 2020 » 19:30 - 21:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Aflýst
  • Efnisskrá

    W.A. Mozart Brúðkaup Fígarós, forleikur
    W.A. Mozart Aríur úr Brúðkaupi Fígarós, Don Giovanni, Così fan tutte o.fl.
    W.A. Mozart Chaconne úr Idomeneo
    W.A. Mozart Sinfónía nr. 40

  • Hljómsveitarstjóri

    Jonathan Cohen

  • Einsöngvari

    Hallveig Rúnarsdóttir

Tónleikunum hefur verið aflýst vegna samkomubanns. Nánar 

Þessir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru sannkölluð veisla fyrir þá sem unna tónlist Mozarts, því að hér hljóma mörg hans vinsælustu verk í bland við tvö sem eru síður þekkt. Forleikur og aríur úr Brúðkaupi Fígarós, Don Giovanni og Così fan tutte mynda fyrri hluta efnisskrárinnar, en einnig heyrist undurfögur aría úr Il re pastore, sem Mozart samdi aðeins 19 ára gamall, og glæsilegur hljómsveitarþáttur úr óperunni Idomeneo. 

Eftir hlé hljómar svo sinfónía Mozarts nr. 40, sem hann samdi undir lok ævinnar. Þessi sinfónía er eitt hans dramatískasta verk og sýnir aukinn þroska hans og áræðni í tónsmíðunum, en um þetta leyti var Mozart í miklum fjárhagskröggum og ritaði vinum sínum átakanleg bréf með ósk um lánveitingar.

Hallveig Rúnarsdóttir hefur á undanförnum árum sungið sig inn í hjörtu landsmanna með kristaltærri rödd sinni. Hún hefur farið með lykilhlutverk í óperum, meðal annars Don Giovanni í uppfærslu Íslensku óperunnar, og einnig vakið mikla hrifningu fyrir óratoríu- og ljóðasöng. Sérstaka athygli vakti blæbrigðaríkur flutningur hennar á Ave Mariu eftir Sigvalda Kaldalóns á tónleikunum Klassíkin okkar haustið 2018, þegar varla var þurrt auga í salnum. Hún var valin söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2018.

Jonathan Cohen er einn fremsti barokkstjórnandi Bretlands af yngri kynslóðinni. Hann stýrir sinni eigin hljómsveit, Arcangelo, sem hefur m.a. hljóðritað Messu í h-moll eftir Bach og hlotið frábæra dóma. Cohen kom fyrst fram á Íslandi á aðventutónleikum Sinfóníunnar 2017 og stýrði sveitinni af slíkum innblæstri að honum var umsvifalaust boðið aftur.