EN

Lugansky spilar Grieg

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
9. maí 2019 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.800 kr.

Rússneski píanósnillingurinn Nikolai Lugansky vakti gífurlega hrifningu haustið 2016 þegar hann lék þriðja píanókonsert Rakhmanínovs í Eldborg á fyrstu tónleikunum sem Yan Pascal Tortelier stýrði sem aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Lugansky snýr nú aftur til Íslands og leikur hinn sívinsæla píanókonsert Griegs, þar sem tónskáldið sameinar í stóru formi blæbrigði norskra þjóðlaga og tónsmíðahefð þýskrar rómantíkur. Konsertinn varð umsvifalaust einn sá vinsælasti sem um getur. Þegar Franz Liszt hafði leikið hann í návist tónskáldsins árið 1870 er sagt að píanistinn frægi hafi hrópað upp yfir sig: „Haltu áfram að semja, í Guðs bænum! Þú hefur það sem til þarf!“

Önnur verk á efnisskránni eru þrungin spennu. Dramatískur forleikur Verdis að óperunni Á valdi örlaganna setur sviðið fyrir harmleikinn sem í vændum er: elskendurnir Alvaro og Leónóra fá ekki að eigast vegna andstöðu foreldranna. Hið sama er vitaskuld uppi á teningnum í Rómeó og Júlíu, og tónlist Prokofíevs fangar öll blæbrigði ástarinnar með áhrifamiklum hætti.

Breyting: Norski stjórnandinn Eivind Aadland hleypur í skarðið fyrir Yan Pascal Tortelier, aðalstjórnanda hljómsveitarinnar, en hann þurfti því miður að aflýsa komu sinni vegna veikinda. Efnisskráin er óbreytt.

Sækja tónleikaskrá