EN

Osmo stjórnar Beethoven

  • 16. mar. » 19:30 Eldborg | Harpa 2.500 - 7.200 kr.
  • Kaupa miða

Rússneski píanistinn Yevgeni Sudbin hefur á undanförnum árum sópað til sín verðlaunum fyrir leik sinn. Nýlegur diskur hans með verkum Skrjabíns var valinn diskur ársins hjá Telegraph og um leið sagði gagnrýnandi blaðsins að Sudbin væri „á góðri leið með að verða einn mesti píanisti 21. aldarinnar“. Hann flytur hér hinn guðdómlega A-dúr konsert Mozarts, þar sem skiptast á skin og skúrir með eftirminnilegum hætti.

Osmo Vänskä þykir einn eftirtektarverðasti Beethoven-túlkandi okkar daga og hljómdiskar hans með Minnesota-hljómsveitinni hafa fengið prýðilega dóma. Hér hljómar hin dásamlega sjöunda sinfónía Beethovens, sem er ein sú fjörugasta sem hann samdi og sem Wagner kallaði „fullkomnun dansins“.

Það er enginn skortur á framúrskarandi tónskáldum í Finnlandi, en Kalevi Aho sker sig úr fyrir litríka og áheyrilega tónlist sína, sem stundum minnir á Shostakovitsj. Eitt áhugaverðasta verk úr smiðju hans síðustu ár er Minea, eins konar konsert fyrir hljómsveit þar sem hver hljóðfærahópur fær sína stund í sviðsljósinu. Verkið samdi Aho árið 2008 fyrir Minnesota-hljómsveitina og Osmo Vänskä, og fá nýleg hljómsveitarverk hafa hlotið jafn einróma lof gagnrýnenda og áheyrenda og þetta frísklega verk sem nú hljómar í fyrsta sinn á Íslandi.

Sækja tónleikaskrá