EN

Páll Óskar og Sinfó á RÚV

Tryggðu þér miða á tónleikana – takmarkað sætaframboð

Dagsetning Staðsetning Verð
28. maí 2020 » 20:00 - 21:00 Eldborg | Harpa 3.900 kr.

Páll Óskar Hjálmtýsson og Sinfóníuhljómsveit Íslands leiða saman hesta sína á ný og flytja gestum í Eldborg og landsmönnum öllum tónlist í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV fimmtudaginn 28. maí kl. 20. Í ljósi rýmkunar á samkomubanni getur Sinfóníuhljómsveit Íslands nú tekið á móti gestum í Eldborg og hefst miðasala á tónleikana kl. 15:00 mánudaginn 25. maí.

Páll Óskar er einn af fáum íslenskum tónlistarmönnum sem er jafnvígur á stuðtónlist og ballöður, enda er leitun að öðrum tónlistarmanni sem höfðar til jafn breiðs hóps hlustenda. Plötur hans hafa selst í bílförmum og troðfullt er á tónleika hans og dansleiki. Eldra fólk sem og börn á leikskólaaldri kunna lög hans utanbókar. Páll Óskar kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum árin 2010 og 2011 við frábærar undirtektir og komust færri að en vildu, og upptaka frá tónleikunum náði metsölu. Nú kemur hann aftur fram með hljómsveitinni í Hörpu og má fullyrða að enginn verði svikinn af þessum frábæra söngvara í toppformi.

Bjarni Frímann Bjarnason stýrir hljómsveitinni en hann hefur getið sér einkar gott orð fyrir innblásinn flutning sinn undanfarin misseri. Þar má meðal annars nefna fjölda tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni, en einnig flutning Íslensku óperunnar á Brúðkaupi Fígarós haustið 2019 sem fékk frábæra dóma. Hann var valinn flytjandi ársins 2019 á Íslensku tónlistar-verðlaununum í mars síðastliðnum. Bjarni Frímann gegnir stöðu aðstoðarhljómsveitarstjóra hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Miðasala er hafin á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög og til að tryggja öryggi tónleikagesta hefur Eldborg verið skipt upp í nokkur fjöldatakmörkuð svæði og því verður takmarkað sætaframboð á tónleikana. Til að auka andrými milli gesta er eitt sæti á milli allra pantana en hægt er að kaupa einn stakan miða eða tvo hlið við hlið. Við bjóðum einnig upp á sæti sem tryggja tveggja metra regluna en slíka miða þarf að bóka í miðasölu Hörpu í síma 528-5050. 

Athugið að tónleikarnir eru klukkustundarlangir án hlés og verða í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV og á Rás 1.