EN

Rakhmanínov og Gubaidulina III – AFLÝST

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
5. jún. 2020 » 19:30 - 21:15 » Föstudagur Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Aflýst

Eitt nýjasta meistaraverk Sofiu Gubaidulinu er konsert fyrir fiðlu, selló og bajan (rússneska hnappaharmóníku), saminn árið 2017 fyrir Sinfóníuhljómsveitina í Boston. Á tónleikunum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg koma fram sömu einleikarar og frumfluttu konsertinn, en honum var afar vel tekið og gagnrýnendur sögðu að hér væri komið eitt merkasta verk Gubaidulinu. Hún segir verkið innblásið af hugmyndinni um heilaga þrenningu og að talan þrír gegni lykilhlutverki, einnig hvað varðar form og tónhugmyndir.

Fiðluleikarinn Baiba Skride hefur þegar leikið tvisvar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og fengið frábærar viðtökur; „leikur hennar einkenndist af afar fallegri tónmyndun og tæknilegum yfirburðum“ sagði rýnir Fréttablaðsins um flutning hennar vorið 2018. Hollenski sellóleikarinn Harriet Krijgh hefur leikið 

með mörgum helstu hljómsveitum heims og er prófessor við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Svissneski bajan-leikarinn Elsbeth Moser hefur sérhæft sig í flutningi á verkum Gubaidulinu, sem semur oft fyrir rússneska hnappaharmóníku, og hafa hljóðritanir hennar fengið mikið lof heimspressunnar.

Í tónlist Rakhmanínovs lifði andi síðrómantíkur langt fram á 20. öld. Kunnastur er hann fyrir tilfinningaþrungna píanótónlist sína en hljómsveitarverkin eru engu síðri. Sinfónískir dansar voru síðasta tónsmíðin sem Rakhmanínov lauk við fyrir andlát sitt, tilþrifamikið og meistaralega útsett verk þar sem hann sækir innblástur meðal annars í rússneskan kirkjusöng.

Upptaktur að hinni rússnesku efnisskrá er strengjaverk eftir Pál Ragnar Pálsson sem stundaði framhaldsnám í Eistlandi. Yfirráðandi kyrrð var frumflutt af Kammerhljómsveitinni í Tallinn og vakti mikla hrifningu, enda var það í kjölfarið tilnefnt til alþjóðlegu Rostrum-verðlaunanna – fyrir hönd Eistlands.