EN

Sæunn leikur Shostakovitsj ­

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
30. mar. 2023 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 - 8.700 kr.
Tónleikakynning » 30. mar. kl. 18:00 — Hörpuhorn

Kóreska tónskáldið Unsuk Chin hefur um árabil verið í hópi fremstu samtímatónskálda á heimsvísu. Hún hlaut hin virtu Léonie Sonning-verðlaun árið 2021, en meðal fyrri verðlaunahafa eru Ígor Stravinskíj og Arvo Pärt. Árið 2019 sagði listrýnir The Guardian að sellókonsert Chin væri eitt af allra bestu tónverkum 21. aldarinnar til þessa. Verkið, Subito con forza, samdi hún í tilefni af 250 ára afmæli Beethovens en það var frumflutt á Proms-tónlistarhátíðinni 2021 og hlaut þar lofsamlega gagnrýni, m.a. í stórblaðinu The Times.

Sæunn Þorsteinsdóttir, staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands, er einn fremsti sellisti Íslands og hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir tilfinningaþrunginn leik sinn. Hún heldur tónleika víða um heim, er m.a. fastagestur í Carnegie Hall og kom fram með Fílharmóníusveitinni í Los Angeles á rómaðri Íslandshátíð þeirra. Þá hefur hún verið tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Hér leikur hún fyrri sellókonsertinn eftir Shostakovitsj en konsertinn samdi tónskáldið árið 1959 og tileinkaði góðvini sínum, rússneska sellóleikaranum Mstislav Rostropovítsj sem frumflutti konsertinn í Leníngrad sama ár.

Belarúsinn Dmitry Matvienko bar sigur úr býtum í hinni alþjóðlegu Malko-keppni fyrir unga hljómsveitarstjóra árið 2021. Hann nam upphaflega kórstjórn og var félagi í kór musicAeterna-hópsins en nam síðar hljómsveitarstjórn í Moskvu. Hann stjórnar nú Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta skipti en síðast á efnisskránni hljómar sveitasinfónía Beethovens. Hún er í fimm þáttum, þar á meðal hinn undurblíði annar þáttur, Við lækinn.

*Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.

Sækja tónleikaskrá