EN

Ungsveitin spilar Shostakovitsj

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Tryggðu þér sæti á besta verðinu. Veldu ferna eða fleiri tónleika á Regnbogakort með 20% afslætti
 • 23. sep. 2018 » 17:00 Eldborg | Harpa 2.500 - 4.500 kr.
 • Efnisskrá

  Pēteris Vasks Viatore (Hommage à Arvo Pärt)
  Dmitríj Shostakovitsj Sinfónía nr. 5

 • Hljómsveit

  Ungsveit SÍ

 • Hljómsveitarstjóri

  Daniel Raiskin

Það er Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem á sviðið á þessum tónleikum og flytur fimmtu sinfóníu Dmítrjís Shostakovitsj. Sjaldan hefur eitt tónskáld átt jafn mikið undir viðtökum einnar tónsmíðar og þegar hún var frumflutt í Leníngrad árið 1937, einu harðasta ári ógnarstjórnar Stalíns. Tónlistin er hádramatísk og margir telja sinfóníuna einhverja þá mögnuðustu sem samin var á 20. öld. Einnig hljómar á tónleikunum strengjaverk lettneska tónskáldsins Pēteris Vasks sem hann tileinkar læriföður sínum, Arvo Pärt. Tónlistin er hrífandi í einfaldleika sínum, þar sem teflt er saman tveimur grunnhugmyndum. Verkið segir sögu ferðalangs sem vex og dafnar á lífsgöngu sinni, en undirleikinn myndar stef eilífðarinnar sem aldrei breytist, og stjörnubjartur himinn lýsir honum á göngunni.

Rússneski hljómsveitarstjórinn Daniel Raiskin heldur um taumana en hann hefur mikla reynslu við að starfa með ungmennum að metnaðarfullum verkefnum. Raiskin stýrði Ungsveit SÍ haustið 2017 í glæsilegum flutningi hennar á Vorblóti Stravinskíjs og snýr nú aftur með annað rússneskt meistaraverk í farteskinu. Raiskin hefur auk þess þrívegis stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands með afbragðs árangri.

Eitt mikilvægasta hlutverk sinfóníuhljómsveita um allan heim er að miðla þekkingu sinni og áhuga til nýrra kynslóða hljóðfæraleikara. Frá árinu 2009 hafa tæplega hundrað ungmenni úr tónlistarskólum landsins safnast saman árlega undir merkjum Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og náð undraverðum árangri. Ungsveit SÍ var valin Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2017.

Sækja tónleikaskrá