EN

Aflýst: Upphafstónleikar með Evu

Aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og einn fremsti píanisti heims

Dagsetning Staðsetning Verð
8. okt. 2020 » 20:00 - 21:00 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Aflýst
 • Efnisskrá

  G. Gabrieli Canzon septimi toni nr. 2, fyrir málmblásarahóp
  H. L. Hassler Lied, útsetning fyrir málmblásarahóp
  R. Wagner Siegfried Idyll
  F. Liszt Píanókonsert nr. 2
  E. Grieg Tröllamars og Til vorsins úr Lýrískum stykkjum fyrir einleikspíanó

 • Hljómsveitarstjóri

  Eva Ollikainen

 • Einleikari

  Denis Kozhukhin

Í ljósi nýjustu tilmæla frá yfirvöldum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur Sinfóníuhljómsveitar Íslands ákveðið að aflýsa tónleikunum. Miðahafar geta nýtt upphæðina á aðra tónleika hljómsveitarinnar eða fengið miðana endurgreidda í miðasölu Hörpu.

Í byrjun starfsársins 2020/21 tók finnski hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen formlega við stöðu aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á þessa efnisskrá hefur hún valið þýska rómantík eftir meistarana Wagner og Liszt, en þeim var vel til vina auk þess sem Liszt var tengdafaðir Wagners. 

Upptaktur tónleikanna er þó af öðrum toga, glæsilegur lúðraþytur ættaður frá Feneyjum 16. aldar, eftir Giovanni Gabrieli og þýska tónskáldið Hans Leo Hassler, sem lærði í borginni og flutti hinn ítalska stíl með sér norður til Þýskalands.

Siegfried Idyll er eitt óvenjulegasta verkið á verkaskrá Wagners, sem einbeitti sér að mestu að óperusmíði. Þessi hrífandi tónsmíð var afmælisgjöf hans til eiginkonu sinnar, Cosimu, skömmu eftir að hún hafði fætt son þeirra, sem fékk nafnið Siegfried með vísun í söguhetjuna í samnefndri óperu Wagners, Sigurð Fáfnisbana. 

Rússneski píanóleikarinn Denis Kozhukhin sló eftirminnilega í gegn þegar hann lék með Sinfóníuhljómsveitinni í febrúar 2019. „Einhver mesta flugeldasýning sem maður hefur upplifað“, fullyrti gagnrýnandi Fréttablaðsins, sem jafnframt lýsti yfir „stofnun aðdáendaklúbbs Kozhukhins á Íslandi“ af sama tilefni. Nú gefst tækifæri til að endurnýja kynnin af þessum frábæra píanóleikara í glæsilegum og tilþrifamiklum einleikskonsert eftir Franz Liszt. 

Tónleikunum lýkur með tveimur hrífandi píanólögum úr „Ljóðrænum smástykkjum“ Edvards Grieg, en útgáfa hans á slíkum verkum fór eins og eldur í sinu um álfuna og átti sinn þátt í að gera hann eitt vinsælasta tónskáld Vesturlanda á sinni tíð. Á tónleikunum hljóma tveir vinsælir þættir úr þessum flokki, skemmtilegur tröllamars og ljóðræn vorstemning.

Miðasala er hafin á tónleikana
Í ljósi hertra samkomutakmarkanna er miðaframboð á tónleikana takmarkað við 100 manns í hvert sóttvarnarhólf. Í það minnsta eitt autt sæti er á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Athugið að samkvæmt sóttvarnarlögum ber gestum skylda að vera með grímu á tónleikunum. Við biðjum tónleikagesti að gæta vel að sóttvarnarreglum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er á tónleikana. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.

Ath. að dagskrá tónleikana hefur lítilega breyst frá því hún var auglýst upphaflega.