EN

Föstudagsröðin á Myrkum músíkdögum

Föstudagsröðin í Norðurljósum

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
11. mar. 2022 » 18:00 » Föstudagur Norðurljós | Harpa

Tvö ný og spennandi íslensk hljómsveitarverk hljóma á þessum spennandi tónleikum.

Anna Þorvaldsdóttir er eitt fremsta tónskáld samtímans og verk hennar hafa farið sigurför um heiminn síðustu ár. Nýjasta hljómsveitarverk hennar, CATAMORPHOSIS, var frumflutt á tónleikum Fílharmóníusveitarinnar í Berlín í janúar 2020 en meðal annarra hljómsveita sem komu að pöntun verksins voru Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníusveitin í New York. Gagnrýnandi The Guardian var stórhrifinn, sagði verkið að sumu leyti minna á tónaljóð Sibeliusar en að það stæði „algjörlega á eigin fótum, og skapar fullkomlega sannfærandi hljóðheim“.

Nýtt hljómsveitarverk frá Sveini Lúðvík Björnssyni sætir tíðindum, en íhugul tónlist hans hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Þegar Sinfóníuhljómsveitin flutti klarínettkonsert hans árið 2014 sagði gagnrýnandi Fréttablaðsins að útkoman hafi verið seiðandi og unaðsleg, og að verkið væri „einn allra besti íslenski einleikskonsert sem ég hef hlýtt á“.

Auk þess verður flutt Sinfónía (fyrir hnetti á sporbaug) eftir hina bandarísku Missy Mazzoli, sem hún samdi árið 2013 fyrir Fílharmóníusveit Los Angeles. Mazzoli var tilnefnd til Grammy- verðlauna árið 2019 og The New York Times hafði um hana þau orð að hún væri „eitt hugmyndaríkasta tónskáld New York-borgar“ um þessar mundir.

Sækja tónleikaskrá