EN

Á ferð um sporbaug – Föstudagsröð

Föstudagsröðin í Norðurljósum

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
11. mar. 2022 » 18:00 » Föstudagur Norðurljós | Harpa
Kaupa miða

Tvö ný og spennandi íslensk hljómsveitarverk hljóma á þessum spennandi tónleikum.

Anna Þorvaldsdóttir er eitt fremsta tónskáld samtímans og verk hennar hafa farið sigurför um heiminn síðustu ár. Nýjasta hljómsveitarverk hennar, CATAMORPHOSIS, var frumflutt á tónleikum Fílharmóníusveitarinnar í Berlín í janúar 2020 en meðal annarra hljómsveita sem komu að pöntun verksins voru Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníusveitin í New York. Gagnrýnandi The Guardian var stórhrifinn, sagði verkið að sumu leyti minna á tónaljóð Sibeliusar en að það stæði „algjörlega á eigin fótum, og skapar fullkomlega sannfærandi hljóðheim“.

Kjartan Sveinsson var um árabil hljómborðsleikari í Sigur Rós en hefur undanfarin ár getið sér gott orð sem tónskáld á eigin spýtur. Meðal helstu verka hans má nefna Stríð og Kraftbirtingarhljóm guðdómsins, sem hann skapaði í samstarfi við Ragnar Kjartansson og hafa farið víða um heim. Nú hljómar nýtt hljómsveitarverk Kjartans sem hann semur sérstaklega fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Auk þess verður flutt Sinfónía (fyrir hnetti á sporbaug) eftir hina bandarísku Missy Mazzoli, sem hún samdi árið 2013 fyrir Fílharmóníusveit Los Angeles. Mazzoli var tilnefnd til Grammy- verðlauna árið 2019 og The New York Times hafði um hana þau orð að hún væri „eitt hugmyndaríkasta tónskáld New York-borgar“ um þessar mundir.