EN

Barbara Hannigan

á Listahátíð í Reykjavík

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
3. jún. 2022 » 19:30 » Föstudagur Eldborg | Harpa 3.900 – 9.500 kr.
4. jún. 2022 » 17:00 » Laugardagur Eldborg | Harpa 3.900 – 9.500 kr.

Kanadíska sópransöngkonan og hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan kemur nú í fyrsta sinn til Íslands. Víst er að tónleikar þessarar framúrskarandi tónlistarkonu verða stórviðburður í tónlistarlífinu, þegar hún stjórnar og syngur með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tvennum tónleikum í Eldborg í Hörpu á opnunarhelgi Listahátíðar í Reykjavík í vor.  

Á efnisskrá tónleikanna hefur Hannigan valið fjölbreytt úrval verka frá fyrstu áratugum 20. aldar, allt frá heillandi síðrómantík yfir í hressilega sveiflu Broadway-söngleikja. Syrpa með eftirlætislögum úr söngleikjum George Gershwin hefur farið sigurför um heiminn eftir að Hannigan söng hana inn á plötu árið 2018, en svítan úr Lulu sýnir aðra hið á þessari glæsilegu söngkonu, en hún hefur vakið heimsathygli fyrir túlkun sína á söguhetjunni í óperunni Lulu eftir Alban Berg. Fyrir hlé verður Hannigan í hlutverki hljómsveitarstjórans, í heillandi tilvistarspurningu brautryðjandans Charles Ives og dásamlegu tónaljóði Arnolds Schönberg, Uppljómuð nótt, sem var eitt síðasta verk hans í tjáningarríkum, síðrómantískum stíl áður en hann tók að marka braut módernismans í tónlistinni. 

Barbara Hannigan hefur vakið feykilega aðdáun um heim allan undanfarin ár, fyrir stórfenglegan söng en ekki síður fyrir hæfileika sína sem hljómsveitarstjóri. Hún hefur starfað með öllum helstu hljómsveitum heims og hefur frumflutt yfir 85 ný tónverk, meðal annars eftir György Ligeti og Hans Abrahamsen. Þá hefur hún sungið í helstu óperuhúsum heims, meðal annars hið krefjandi titilhlutverk í Lulu eftir Alban Berg.

Barbara Hannigan hefur hlotið ótal verðlaun fyrir list sína, meðal annars Grammy-verðlaun fyrir plötuna Crazy Girl Crazy árið 2018 og hin virtu Léonie Sonning-verðlaun árið 2020. Þegar Rolf Schock-verðlaunin féllu henni í skaut rökstuddi dómnefndin ákvörðun sína með þeim orðum að Hannigan væri „einstakur og framsækinn flytjandi sem nálgast tónlistina sem hún flytur með öflugum og lifandi hætti“.

Sækja tónleikaskrá