EN

Brahms og Shostakovitsj

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
7. maí 2020 » 19:30 - 21:15 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Aflýst

Tónleikunum hefur verið aflýst vegna samkomubanns. Nánar 

Hin bandaríska Alisa Weilerstein er í hópi fremstu sellista heims. Hún hlaut hin eftirsóttu MacArthur verðlaun árið 2011 fyrir að sameina „ástríðufullan tónlistarflutning og tæknilega fullkomnun“, eins og dómnefndin orðaði það. Þeirri ákvörðun var meðal annars fagnað í New York Times, þar sem hún var kölluð „tónlistarkona með sannar hugsjónir“.

Eiginmaður Weilerstein er hljómsveitarstjórinn Rafael Payare, sem ólst upp í El Sistema-hljómsveitakerfinu í Venesúela. Hann var um skeið fyrsti hornleikari hinnar frægu Simon Bolivar-hljómsveitar, hlaut fyrstu verðlaun í Malko-stjórnendakeppninni árið 2012 og tók nýverið við stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar í San Diego.

Weilerstein leikur seinni sellókonsert Shostakovitsj, sem hann samdi árið 1966 handa Mstislav Rostropovitsj. Þetta er dulúðleg 

og dökk tónsmíð, en þó skín kímnigáfa tónskáldsins einnig í gegn, m.a. þegar hann vitnar í úkraínskan götusöng. Önnur sinfónía Brahms er ljúfasta og áheyrilegasta verk hans af þessum toga og nýtur verðskuldaðra vinsælda hjá tónlistarunnendum um allan heim. Einn vinur tónskáldsins lýsti verkinu svo: „Ekkert nema heiðblár himinn, lækjarniður, sólskin og græn forsæla!“

Nýtt hljómsveitarverk frá Sveini Lúðvík Björnssyni sætir tíðindum, en íhugul tónlist hans hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Þegar Sinfóníuhljómsveitin flutti klarínettkonsert hans árið 2014 sagði gagnrýnandi Fréttablaðsins að útkoman hefði verið seiðandi og unaðsleg, og fullyrti að verkið væri „einn allra besti íslenski einleikskonsert sem ég hef hlýtt á“.