EN

Daniil Trifonov - Einleikstónleikar

Einleikstónleikar í Eldborg

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
10. sep. 2022 » 20:00 » Laugardagur Eldborg | Harpa 3.000 - 8.700 kr.

Daniil Trifonov er einn dáðasti píanóleikari samtímans – „tvímælalaust undraverðasti píanisti okkar tíma,“ skrifar gagnrýnandi stórblaðsins The Times um leik hans. Trifonov er einn eftirsóttasti einleikari samtímans og kemur hann nú  fram í fyrsta sinn á einleikstóleikum á Íslandi. 

Hann skaust upp á stjörnuhimininn þegar hann bar sigur úr býtum í Tsjajkovskíj-keppninni í Moskvu árið 2011, tvítugur að aldri, en síðan hafa honum m.a. hlotnast Grammy-verðlaun auk þess sem tímaritin Gramophone og Musical America hafa útnefnt hann Tónlistarmann ársins. Hann hefur hljóðritað fjölda platna fyrir Deutsche Grammophon og hefur leikið með öllum helstu hljómsveitum heims ásamt því að gegna stöðu staðarlistamanns hjá Fílharmóníusveitunum í New York og Berlín.

Hinn heimsþekkti píanóleikari Daniil Trifonov leikur spennandi efnisskrá á þessum einleikstónleikum: Verk eftir Tsjajkovskíj, fantasíu eftir Schumann og píanósónötu nr. 3 eftir Brahms.

Efnisskrá Trifonovs einkennist af andríki og lífsþrótti, en æskan tengist öllum verkunum á einn eða annan hátt.

Myndabók æskunnar er hrífandi safn 24 smáverka sem Pjotr Tsjajkovskíj samdi á aðeins fjórum dögum á meðan á hressingardvöl hans í Brailov í Úkraínu stóð sumarið 1878. Þegar þar var komið sögu hafði tónskáldið nýlega lokið við stórvirki á borð við fimmtu sinfóníuna, Evgení Onégin og fiðlukonsertinn og fannst því upplagt að hvíla sig á stærri formum með því að draga upp litríkar smámyndir í tónum ætlaðar ungum píanistum.

Fantasía Róberts Schumanns í C-dúr ópus 17 er ástríðufull tónsmíð, full til jafns af þeirri alsælu og örvæntingu sem rúmast í tilfinningalífi ástfangins ungmennis. Schumann samdi hana 1836, þegar hann var aðskilinn frá ástinni sinni Clöru og allt var enn óráðið um hvort þau næðu aftur saman. Margir telja verkið því einskonar ástarbréf í tónum - þótt verkið hafi reyndar upphaflega verið ætlað sem tónsmíð til heiðurs Beethoven, sem látist hafði níu árum fyrr.

Þriðja píanósónata Jóhannesar Brahms var samin síðla árs 1853, þegar tónskáldið var rétt að verða tvítugt og að brjótast til frægðar sem píanóleikari og tónskáld - en það var einmitt Róbert Schumann sem átti sinn þátt í því. Í áhrifamikilli tónlistargagnrýni í tímariti sínu Neue Zeitschrift für Musik þetta ár sagði Schumann hinn unga Brahms hafa sprottið fram fullþroska eins og Aþenu úr höfði Seifs, og útnefndi hann vonarstjörnu þýskrar tónlistar. Þriðja píanósónatan var sem staðfesting á þessum orðum: Verkið er að sinfónískri stærðargráðu, og uppfullt af andríki og hugmyndaauðgi. 

Einleikstónleikar Trifonovs fara fram í Eldborg eru og eru haldnir í framhaldi af tónleikum hans með Sinfóníuhljómsveit Íslands.