EN

Eva stjórnar Sibelius

David Bobroff flytur spennandi konsert fyrir bassabásúnu eftir Kenneth Fuchs

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
18. feb. 2021 » 20:00 - 21:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.400 – 5.700 kr.

Norræn tónlist er í forgrunni á þessari spennandi efnisskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Evu Ollikainen aðalhljómsveitarstjóra.

Danska tónskáldið Carl Nielsen samdi Helios-forleik sinn í Grikklandi árið 1903, innblásinn af fornri menningu og list. Eiginkona Nielsens, Anne-Marie, var myndhöggvari og þegar henni var boðið til Grikklands slóst eiginmaðurinn með í för, fékk lánað píanó og samdi glæsilega tónlist meðan Anne-Marie vann að list sinni. 

Tapiola er eitt af ótal verkum sem Jean Sibelius samdi undir áhrifum frá finnskum arfi þjóðkvæða og þjóðtrúar, í þetta sinn um skógarguðinn Tapio og lendur hans. Þetta var síðasta stóra tónsmíð Sibeliusar, sem lifði í önnur 30 ár en lagði tónsmíðar á hilluna. 

Þá leikur hljómsveitin einnig áhugavert verk eftir finnska tónskáldið Outi Tarkianen sem pantað var í sameiningu af Finnsku útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi. Songs of the Ice er innblásið af ís á Norðurslóðum og hægu ferli árstíðanna. Tarkianen hefur hlotið mikið lof fyrir tónlist sína og var meðal annars tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2018.

Á tónleikunum hljómar einnig  nýr konsert fyrir bassabásúnu eftir Kenneth Fuchs í flutningi Davids Bobroff, sem hefur verið bassabásúnuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands svo áratugum skiptir. Fuchs hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir tónlist sína, meðal annars Grammy-verðlaun árið 2018. „Hann er meistari í því að semja fyrir hljómsveit,“ sagði BBC Music Magazine, „og tónlist hans ber vott um ríkt ímyndunarafl“. Hljómsveitarstjóri er Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveita Íslands.

Tónleikunum er útvarpað beint á Rás 1.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 100 tónleikagesti í fjórum sóttvarnarhólfum í Eldborg. Í það minnsta tvö auð sæti eru á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum sem eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.

Breyting: Efnisskrá tónleikanna hefur verið breytt að hluta frá því hún var kynnt undir heitinu Eva stjórnar Wagner.