EN

Hadelich leikur Brahms

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
8. jún. 2023 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 - 8.700 kr.

Hinn þýsk-bandaríski Augustin Hadelich sló eftirminnilega í gegn á 70 ára afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands vorið 2020 þegar hann lék fiðlukonsertinn eftir Sibelius. Hann snýr nú aftur og leikur hinn glæsilega, tilfinningaþrungna og oft átakanlega fiðlukonsert Brahms en Hadelich hefur á síðustu árum skipað sér í fremstu röð fiðluleikara á heimsvísu. Hann var útnefndur hljóðfæraleikari ársins 2018 af tímaritinu Musical America og hefur unnið til Grammy-verðlauna. Augustin Hadelich leikur á fiðlu sem Giuseppe Guarneri del Gesù smíðaði árið 1744.

Bertrand de Billy, aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, lýkur svo yfirferð sinni yfir sinfóníur Brahms með þeirri fjórðu. Þar lítur Brahms um öxl, einkum til barokksins, en sinfónían var eitt síðasta hljómsveitarverk tónskáldsins. Verkið hefst á ljúfu og blíðu stefi sem þó er fullt trega. Tónskáldið leiðir okkur áfram í gegnum verkið með afar ljóðrænum hætti uns lokaþátturinn (sjankonna) birtist með sín þrjátíu tilbrigði yfir átta takta hljómagang sem fenginn er að láni úr kantötu nr. 150 eftir Bach, Til þín, Drottinn, hef ég sál mína.

*Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.

Sækja tónleikaskrá