EN

Haydn og Brahms

Sigurgeir Agnarsson sellóleikari flytur undurfagran sellókonsert Haydns

Dagsetning Staðsetning Verð
11. feb. 2021 » 20:00 - 21:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.400 – 5.700 kr.
Hlusta

Á tónleikunum hljóma tvö meistarastykki eftir Haydn og Brahms undir stjórn Evu Ollikainen, aðalstjórnanda hljómsveitarinnar.

Sellókonsert Haydns er meistaralega saminn fyrir hljóðfærið og hér hljómar hann í flutningi Sigurgeirs Agnarssonar, sem leiðir sellódeild Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Konsertinn var lengi vel týndur en tékkneskur tónlistarfræðingur fann nóturnar fyrir algjöra tilviljun á Þjóðskjalasafninu í Prag árið 1961. Sá grunur manna um að hugsanlega væri til óþekktur konsert eftir Haydn átti rætur sínar að rekja til þess að upphafsnótur hans fundust krotaðar í skissubók tónskáldsins undir yfirskriftinni: Sellókonsert í C-dúr. Allar götur síðan konsertinn komst í leitirnar hefur hann verið eitt vinsælasta verk sellóleikara um allan heim.

Sinfónía nr. 2 eftir Brahms er hans dáðasta sinfónía enda er hún sérlega ljúf og áheyrileg. Jón Ásgeirsson tónskáld hafði á orði að hún væri „sneisafull af þeim stefjum sem syngja sig inn í sál manns“ og einn vinur tónskáldsins lýsti verkinu svo: „Ekkert nema heiðblár himinn, lækjarniður, sólskin og græn forsæla!“

Tónleikunum er útvarpað beint á Rás 1.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 100 tónleikagesti í fjórum sóttvarnarhólfum í Eldborg. Í það minnsta tvö auð sæti eru á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum sem eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.