EN

Hough leikur Rakhmanínov

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
23. feb. 2023 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 - 8.700 kr.
Hlusta

Hinn heimsþekkti píanóleikari, Stephen Hough, kemur nú í annað sinn á starfsárinu fram með Sinfóníuhjómsveit Íslands en samstarf hans við hljómsveitina heldur svo áfram á tónleikaferð um Bretland í apríl. Hann leikur nú hinn tilfinningaþrungna píanókonsert nr. 2 eftir Sergej Rakhmanínov en Hough hefur m.a. hljóðritað alla píanókonserta tónskáldsins með Sinfóníuhljómsveitinni í Dallas.

Árið 1900 var Rakhmanínov niðurbrotinn maður eftir að frumflutningurinn á fyrstu sinfóníu hans hafði misheppnast og verkið fallið í grýttan jarðveg. Hann lagðist í þunglyndi, missti allt sjálfstraust og var ófær um að koma einni einustu nótu á blað. Með óvenjulegri blöndu samtals- og dáleiðslumeðferðar tókst landa hans, Nicolai Dahl, að kveikja hjá Rakhmanínov kjark og sjálfstraust svo til varð nýtt verk, píanókonsert nr. 2. Konsertinum, sem tónskáldið tileinkaði Dahl, var fagnað ákaflega við frumflutninginn og hefur hann æ síðan verið meðal dáðustu píanókonserta tónlistarsögunnar.

Í viðtalsbókinni Testimony (Vitnisburður, 1979) segir Shostakovitsj m.a. um tíundu sinfóníuna: „Hún er Stalín og Stalínárin.“ Sannleiksgildi bókarinnar hefur verið dregið í efa en margir hafa þóst sjá lýsingar á einræðisherranum í tónlistinni sem fer allt frá því að vera innhverf og hæglát yfir í kaldhæðni og allt að því fullkomna heift. Þá notar tónskáldið nafn sitt í verkinu með eftirminnilegum hætti, það er að segja tónana d-es-c-h, sem hljóma í þriðja þætti verksins sem og í lokatöktum þess.

*Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.

*Upphaflega átti Eva Ollikainen að stjóra tónleikunum en hún hefur því miður þurft að afboða komu sína. 

Sækja tónleikaskrá