EN

Mozart og Haydn

Katie Buckley hörpuleikari og Frank Aarnink slagverksleikari flytja nýlegt verk eftir Hauk Tómasson

Dagsetning Staðsetning Verð
7. jan. 2021 » 20:00 - 21:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.400 – 5.700 kr.

Tvö björt og glaðvær verk eftir meistara Vínarklassíkurinnar ramma inn fyrstu efnisskrá ársins 2021 hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Così fan tutte var ein síðasta óperan sem Mozart samdi og fjörugur forleikurinn setur sviðið fyrir ævintýralegar uppákomur þar sem reynir á trygglyndi tveggja elskenda. Undir lok ævinnar samdi Joseph Haydn tólf sinfóníur fyrir tónleikaröð sína í Lundúnum, þar sem honum var fagnað sem stórstjörnu. Jafnvel sjálfur prinsinn af Wales hreifst svo af tónlist hans að hann lét mála mynd af tónskáldinu, sem hangir enn í Buckingham-höll. Síðasta sinfónía Haydns, sem telst eitt afkastamesta sinfóníuskáld sögunnar, er lífsgleðin uppmáluð.

Hinn bandaríski George Walker varð fyrstur svartra tónskálda til að hljóta hin virtu Pulitzer-verðlaun í tónlist. Kunnasta verk hans er hið undurfagra Lyric fyrir strengi, samið árið 1946 og tileinkað ömmu tónskáldsins, sem upplifði sjálf þrældóm í æsku.

Nature morte er nýlegt verk eftir Hauk Tómasson, frumflutt á Myrkum músíkdögum í janúar 2020. Þá lýsti enski gagnrýnandinn Simon Cummings því sem „frábæru verki eftir eitt af skemmtilegustu tónskáldum Íslands“. Einleikarar eru Katie Buckley hörpuleikari og Frank Aarnink slagverksleikari, sem leikur á hið áhugaverða ungverska hljóðfæri cimbalom í verki Hauks Tómassonar. Hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason, staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Uppselt er á tónleikana en þeim verður útvarpað beint á Rás 1.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 50 tónleikagesti í hvert sóttvarnarhólf eða samtals 200 gesti í fjórum hólfum. Í það minnsta tvö auð sæti eru á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber einnig skylda að vera með grímu á tónleikunum. Tónleikarnir eru um klukkustundar langir og ekki er gert hlé. Við biðjum tónleikagesti að gæta vel að sóttvarnarreglum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er á tónleikana. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.