| Dagsetning | Staðsetning | Verð | ||
|---|---|---|---|---|
| 23. okt. 2025 » 19:30 » Fimmtudagur | Eldborg | Harpa | 3.990 - 12.200 kr. | ||
| Hlusta | ||||
-
Efnisskrá
Richard Wagner Forleikur að Die Meistersinger von Nürnberg
Ígor Stravinskíj Sinfónía í þremur þáttum
Richard Wagner Prelúdía að fyrsta þætti úr Tristan und Isolde
Richard Wagner Tónlist úr 2. atriði úr öðrum þætti Tristan und Isolde
-
Hljómsveitarstjóri
-
Einsöngvarar
Óperan um Tristan og Ísold eftir Richard Wagner er af mörgum talin eitt af meistaraverkum tónbókmenntanna. Hún hefur heillað áhorfendur með margslungnum vangaveltum sínum um ástina og lífið, en ekki síður með einstöku tónmáli sem hlaðið er ljóðrænni spennu og óvæntri framvindu. Á tónleikunum hljómar tónlist úr verkinu þar sem stórsöngvararnir Nina Stemme og Stuart Skelton fara með hlutverk elskendanna tveggja. Nina Stemme er fastagestur í stærstu óperu- og tónleikahúsum heims þar sem hún syngur mörg dramatískustu sópranhlutverk tónbókmenntanna.
Stuart Skelton hefur einnig skipað sér í röð fremstu tenóra samtímans, ekki síst fyrir túlkun sína á tónlist Wagners. Hanna Dóra Sturludóttir er ein kunnasta söngkona okkar Íslendinga og hefur sungið fjölbreytt hlutverk víða um heim. Hún syngur hlutverk Brangäne, þernu Ísoldar.
Það er mikill fengur fyrir alla unnendur óperutónlistar að sjá og heyra þessa stórsöngvara saman á sviði Eldborgar flytja tónlist úr þessari stórkostlegu óperu. Það er Finnski hljómsveitarstjórinn Pietari Inkinen sem stjórnar flutningi á þessari mögnuðu tónlist Wagners og teflir einnig fram nýklassískri sinfóníu Stravinskíjs í þremur þáttum sem mótvægi við alla rómantíkina.
Pietari Inkinen er einn af fremstu hljómsveitarstjórum sinnar kynslóðar. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir stórhuga nálgun og einstaka tækni. Inkinen hefur öðlast alþjóðlega viðurkenningu fyrir störf sín með helstu hljómsveitum heims, þar á meðal Konunglegu Concertgebouw-hljómsveitinni, Bæversku útvarpshljómsveitinni og Fílharmóníusveitinni í Los Angeles. Nýverið tók hann við stöðu aðalstjórnanda hjá KBS sinfóníuhljómsveitinni í Seúl, sinfóníuhljómsveit Suður-Kóreska útvarpsins. Tónlist Wagners hefur átt miðlægan sess í listsköpun Inkinen. Árið 2023 stjórnaði hann t.d. nýrri uppfærslu á Niflungahringnum á Bayreuth-hátíðinni.
* Hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen hefur því miður forfallast en í hennar stað mun samlandi hennar Pietari Inkinen stjórna tónleikunum. Efnisskrá tónleikanna hefur breyst lítillega frá því hún var upphaflega kynnt.
*Tónleikarnir eru rúmlega 90 mínútur með tuttugu mínútna hléi.




