EN

Sellókonsert Dvořáks

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
30. sep. 2021 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 – 8.500 kr.
Hlusta

„Maður hálfdansaði út úr Hörpunni á eftir“ sagði rýnir Fréttablaðsins eftir tónleika Peters Oundjian og Sinfóníuhljómsveitarinnar í Toronto í Reykjavík 2014 og bætti við að þeir hefðu verið „með flottustu klassísku tónleikum ársins“. Oundjian lék um árabil með Tókýó-strengjakvartettinum heimskunna og var lengi aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Toronto. Hann kemur nú til Íslands í þriðja sinn og er hægt að lofa innblásnum flutningi þegar hann á í hlut.

Danski sellóleikarinn Jonathan Swensen hefur undanfarin ár sópað að sér verðlaunum í alþjóðlegum keppnum og hlaut einnig Leonie Sonning-verðlaunin í heimalandi sínu fyrir framúrskarandi leik. Hann leikur sellókonsert Dvořáks sem er eitt dáðasta verk sinnar tegundar, í senn flugeldasýning og hjartnæmur söngur sem tjáir sorg og söknuð.

Á tónleikunum hljómar einnig glæsilegur Konsert fyrir hljómsveit sem Joan Tower samdi árið 1991 að beiðni þriggja bandarískra sinfóníuhljómsveita, í New York, Chicago og St. Louis. Tower hefur unnið til Grammy-verðlauna fyrir tónlist sína og var fyrsta konan til að hljóta hin virtu Grawemeyer-tónskáldaverðlaun. Um konsert hennar fyrir hljómsveit sagði gagnrýnandi New York-tímaritsins að hann væri „litríkt og innblásið verk sem mun án efa teljast í flokki hinna bestu sem hún hefur samið“.

Á tónleikunum verður frumflutt nýtt verk eftir Halldór Smárason, ísfirskt tónskáld sem hefur vakið mikla eftirtekt á undanförnum árum fyrir hæfileika sína og fjölhæfni. Verkið infinite image er samið undir áhrifum frá ljóðinu Þoka eftir Sigurð Pálsson, sem er einstaklega myndrænt og litríkt. Líkt og ljóðið hverfist tónverkið í kringum mörkin milli hins sjáanlega og ósjáanlega, hins heyranlega og óheyranlega.

Sækja tónleikaskrá