EN

Sigrún spilar Beethoven

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
6. maí 2021 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Fiðlukonsert Beethovens var tímamótaverk og setti markið hátt fyrir tónskáld 19. aldar sem fetuðu í fótspor hans og sömdu verk af sama toga. Tónsmíðin er í senn ljóðræn, glettin og kraftmikil, og sýnir því allar hinnar ólíku hliðar á bæði hljóðfærinu og einleikaranum sem mundar það. Það er vel við hæfi að hann hljómi á Beethoven-ári í flutningi Sigrúnar Eðvaldsdóttur, konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem er landsþekkt fyrir innblásinn og tjáningarríkan flutning.

Á seinni hluta tónleikanna hljóma tvö hljómsveitarverk frá síðari hluta 19. aldar. Alice Mary Smith var eitt helsta kventónskáld Bretlands á þeirri tíð, samdi fjölda kórverka og kammertónlist en einnig tvær merkar sinfóníur. Sú fyrri er samin árið 1863 og er sérlega áhrifarík og kraftmikil. Tónlistin minnir nokkuð á Mendelssohn sem einmitt naut mikillar hylli á Bretlandseyjum.

Tónleikunum lýkur með hinu mikilfenglega tónaljóði Tod und Verklärung (Dauði og uppljómun), þar sem lýst er þönkum listamanns á dauðastundu. Litríkur tónavefur Strauss fær að njóta sín jafnt í tignarlegum hápunktum sem í fíngerðustu blæbrigðum hljómsveitarinnar.

Sænski hljómsveitarstjórinn Stefan Solyom stjórnar nú í fyrsta sinn í Eldborg, en hann stjórnaði allnokkrum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói með frábærum árangri. Hann var um árabil tónlistarstjóri í Weimar og er nú aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Helsingborg.