EN

Sinfónían á Airwaves

  • 2. nóv. 2017 » 20:00 Eldborg | Harpa 2.600 - 4.300 kr.
  • Hlusta

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Iceland Airwaves-hátíðinni 2017 hljóma verk eftir fjögur íslensk tónskáld sem hafa hlotið mikið lof á undanförnum árum fyrir tónlist sína þar sem litir, stemning og andrúmsloft eru í fyrirrúmi.

María Huld Markan Sigfúsdóttir er meðlimur í hinum kunna tónlistarhópi Amiina og starfaði árum saman með Sigur Rós. Nýlegt hljómsveitarverk hennar, Aequora, hefur meðal annars verið flutt af Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles og var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem verk ársins.

Hildur Guðnadóttir hefur hlotið mikið lof fyrir tónlist sína, ekki síst tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti eins og Tom of Finland, Sicario og The Handmaid's Tale en hún er meðlimur í hljómsveitinni Múm. Verk hennar, Undir tekur yfir, er hugleiðing um undirmeðvitundina, eins konar æfing í áreynslulausri hlustunareinbeitingu þar sem lýsing í salnum leikur einnig stórt hlutverk. Verkið var tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Anna Þorvaldsdóttir er eitt frægasta samtímatónskáld Íslands og hefur unnið með hópum á borð við Fílharmóníuhljómsveitina í New York, þar sem hún gegnir stöðunni Kravis Emerging Composer. Hún hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verk sitt Dreymi.

Verkið Flow and Fusion eftir Þuríði Jónsdóttur er heillandi samruni rafhljóða og hljómsveitarleiks. Við smíði verksins kveðst Þuríður hafa haft í huga „ólíka tauma flæðandi glóðheitrar bergkviku sem sameinuðust í einni iðandi hraunkvoðu, sem storknaði svo, varð að kletti … og endurómaði“. Verk Þuríðar var einnig tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Þrjú af fjórum verkum á efnisskránni voru nýlega gefin út á geisladisknum Recurrence í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hægt er að hlusta á verkin á Spotify hér að neðan.

Hægt er að kaupa staka miða á tónleikana án þess að eiga passa á hátíðina sjálfa. Þeir sem eiga passa geta sótt miða á tónleikana í miðasölu Hörpu.

Sækja tónleikaskrá