EN

Sunwook Kim leikur Brahms

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
9. mar. 2023 » 19:30 - 21:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 - 8.700 kr.

Suður-kóreski píanóleikarinn Sunwook Kim vakti heimsathygli þegar hann fór með sigur af hólmi í Leeds-píanókeppninni árið 2006, þá einungis 18 ára gamall, og varð þar með yngsti sigurvegarinn í 40 ára sögu keppninnar. Upp frá því hefur hann verið eftirsóttur einleikari og hafa gagnrýnendur lýst leik hans sem kraftmiklum, listfengum og lýrískum.

Sunwook Kim þreytir nú frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands og leikur hinn stórbrotna píanókonsert nr. 2 eftir Johannes Brahms. Konsertinn er mikilfenglegur og sinfónískur í hugsun, en býr einnig yfir fíngerðri lýrík – til að mynda í samspili píanós og sellós í yndisfögrum hæga kaflanum.

Franski hljómsveitarstjórinn Bertrand de Billy er aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hann fylgir nú eftir vel heppnuðum flutningi á fyrstu sinfóníu Brahms á síðasta starfsári. Þeir tónleikar voru upphafið að Brahms-hring sem de Billy leiðir til lykta á þessu starfsári með því að stjórna hinum sinfóníunum þremur. Þriðja sinfónía Brahms er styst þeirra allra en hlaðin tónlistarlegu inntaki.

 *Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.

Sækja tónleikaskrá