EN

Trifonov spilar Beethoven

Upphafstónleikar

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
8. sep. 2022 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 3.900 - 9.900 kr.

Daniil Trifonov er einn dáðasti píanóleikari samtímans – „tvímælalaust undraverðasti píanisti okkar tíma,“ skrifar gagnrýnandi stórblaðsins The Times um leik hans. Trifonov skaust upp á stjörnuhimininn þegar hann bar sigur úr býtum í Tsjajkovskíj-keppninni í Moskvu árið 2011, tvítugur að aldri, en síðan hafa honum m.a. hlotnast Grammy-verðlaun auk þess sem tímaritin Gramophone og Musical America hafa útnefnt hann Tónlistarmann ársins. Hann hefur hljóðritað fjölda platna fyrir Deutsche Grammophon og hefur leikið með öllum helstu hljómsveitum heims ásamt því að gegna stöðu staðarlistamanns hjá Fílharmóníusveitunum í New York og Berlín. Nú leikur Trifonov með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn, hinn ljóðræna og hrífandi píanókonsert nr. 4 eftir Beethoven.

Tónleikarnir hefjast á hinum kraftmikla Egmont-forleik, þar sem Beethoven túlkar harmræn örlög manns sem fórnar lífi sínu í stríði gegn yfirráðum Spánverja á 16. öld.

Anna Þorvaldsdóttir hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð tónskálda á heimsvísu og nýtur fádæma hylli fyrir verk sín. Hún hefur m.a. samið fyrir Fílharmóníusveit Berlínar og hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir
verk sín. Nýjasta hljómsveitarverk Önnu, ARCHORA, verður frumflutt sumarið 2022 á PROMS-tónlistarhátíð BBC í Royal Albert Hall í Lundúnum, og hljómar því næst á Íslandi við upphaf nýs tónleikaárs. Hljómsveitir víða um heim hafa þegar sett verkið á efnisskrár sínar enda telst nýtt verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur heimsviðburður.

Tónleikunum lýkur með hinni magnþrungnu sinfóníu nr. 7 eftir Jean Sibelius. Þetta var síðasta sinfónían sem finnski meistarinn sendi frá sér, aðeins fáeinum árum áður en hann lagði tónsmíðar á hilluna fyrir fullt og allt. Sinfónían er sérlega frumleg og hrífandi, og hér er aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar, hin finnska Eva Ollikainen, bókstaflega á heimavelli.