EN

Una og Daníel

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
10. jún. 2021 » 20:00 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.400 - 5.700 kr.
Hlusta

Á þessum tónleikum leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands hina ljúfu sinfóníu nr. 2 eftir Johannes Brahms auk þess sem nýr íslenskur fiðlukonsert heyrist í fyrsta sinn.  Jón Ásgeirsson tónskáld hafði á orði að sinfónía Brahms væri „sneisafull af þeim stefjum sem syngja sig inn í sál manns“, og mætti því segja að þessi bjarta og glaðværa sinfónía sé fullkominn upptaktur að góðu sumri. Áður stóð til að flytja einnig „Klassísku sinfóníuna“ eftir Prokofíev en ákveðið var að stytta tónleikana og fella verkið út, þar sem ekki verður hlé á tónleikunum. 

Þuríður Jónsdóttir kannar nýja hljóðheima í verkum sínum sem hafa vakið alþjóðlega athygli á undanförnum árum. Mörg þeirra eru studd rafhljóðum, önnur innihalda leikræna tilburði, náttúruhljóð eða þátttöku áheyrenda. Eitt nýjasta verk hennar var frumflutt í Walt Disney Concert Hall í febrúar 2020 og hlaut frábæra dóma.

Hér hljómar spánnýr fiðlukonsert sem hún samdi fyrir Unu Sveinbjarnardóttur, þriðja konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Una er landskunn fyrir innblásinn leik sinn, bæði sem sólisti og í strokkvartettinum Sigga sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Þegar hún lék einleik með Sinfóníunni fyrir nokkrum árum sagði tónlistarrýnir Fréttablaðsins flutninginn hafa einkennst af „aðdáunarverðri fagmennsku, ljóðrænni innlifun og skáldskap, en einnig tæknilegum yfirburðum“.

Daníel Bjarnason hefur vakið verðskuldaða athygli á undanförnum árum bæði sem tónskáld og hljómsveitarstjóri. Hann hefur til dæmis nýverið stjórnað tónleikum með Fílharmóníusveitinni í Los Angeles, auk þess sem hann stýrði Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikaferð hennar um Þýskaland og Austurríki haustið 2019 með frábærum árangri.

Kynnir á tónleikunum er Árni Heimir Ingólfsson og er þeim útvarpað beint á Rás 1.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 150 tónleikagesti í hverju sóttvarnarhólfi. Í það minnsta eitt autt sæti er á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum sem eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.