EN

Víkingur og Daníel

í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
2. mar. 2022 » 20:00 » Miðvikudagur Eldborg | Harpa 2.900 – 7.500 kr.
Kaupa miða
 • Efnisskrá

  John Adams Lollapalooza
  María Huld Markan Sigfúsdóttir Clockworking
  Daníel Bjarnason Píanókonsert nr. 3

 • Hljómsveitarstjóri

  Daníel Bjarnason

 • Einleikari

  Víkingur Heiðar Ólafsson

 • Kynnir

  Halla Oddný Magnúsdóttir

Tónleikakynning » 2. mar. kl. 18:30

Þegar Víkingur Heiðar Ólafsson frumflutti píanókonsertinn Processions eftir Daníel Bjarnason á Myrkum músíkdögum 2009 var augljóst að ný kynslóð væri í þann mund að setja mark sitt á íslenskt tónlistarlíf og gestir létu hrifningu sína óspart í ljós. „Tónleikagestir svifu út með nýja trú á framtíðina,“ skrifar Guðrún Nordal um þessa tónleika í bók sinni, Skiptidögum. Daníel hefur síðan hlotið margs konar viðurkenningar fyrir list sína og nú er komið að því að hann semji nýjan píanókonsert fyrir Víking Heiðar, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníusveitina í Los Angeles. Verkið verður frumflutt í Frankfurt í febrúar 2022 og það hljómar á Íslandi aðeins örfáum vikum síðar.

Tvö önnur nýleg verk eru á efnisskránni. Lollapalooza er stutt og snaggaraleg tónsmíð eftir John Adams sem sjálfur er væntanlegur til Íslands á lokahnykk Víkings-þrennunnar í maí 2022. Verkið er bráðskemmtilegur bræðingur af djassi, klassík og nútímatónlist, og var afmælisgjöf tónskáldsins til Sir Simon Rattle sem hefur stjórnað verkum Adams víða um heim.

Clockworking eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur var upphaflega samið fyrir kammerhóp en ný gerð þess fyrir hljómsveit var frumflutt í Fort Worth í Bandaríkjunum árið 2019. Verkið byggir hún á gömlum vinnusöngvum bandarískra fanga, en úr hendingunum mótar hún mörg lítil gangverk sem saman mynda eina heild líkt og stór klukka.

Tónleikunum er einnig sjónvarpað beint á RÚV og eru þeir um klukkustundarlangir án hlés.