EN

Fimm söngvar og sinfónía

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
11. maí 2017 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.200 kr.

Það gerðist ekki oft að kventónskáld 19. aldar semdu fyrir sinfóníuhljómsveit. Karlar lögðu línurnar í tónlistarlífinu í þá daga og þeim þótti kröftum kvenna betur varið í smærri verk sem flytja mætti innan veggja heimilisins, sönglagasmíði og píanómúsík. Fanny Mendelssohn var hámenntuð tónlistarkona en samdi aðeins eitt hljómsveitarverk, forleikinn sem nú hljómar í fyrsta sinn á Íslandi og er það kærkomið tækifæri til að kynnast betur tónsmíðum þessarar merku listakonu.

Í nýjum lagaflokki sínum tónsetur Hafliði Hallgrímsson ljóð eftir þrjú af helstu skáldum Englands á 18. og 19. öld: Samuel Taylor Coleridge, William Blake og Christinu Rosetti. 

Þau Helena Juntunen og John Storgårds frumfluttu verkið ásamt Skosku kammersveitinni í febrúar síðastliðnum; gagnrýnandi The Telegraph sagði verkið mynda „fullkomlega sannfærandi heild“ sem væri knúið áfram af tónrænu ímyndunarafli Hafliða og „ótrúlegu næmi“ hans á litbrigði hljómsveitarinnar.

„Ég gef gömlu meisturunum ekkert eftir“ ritaði Sibelius í dagbók sína árið 1922, fullur sjálfstrausts. Um sama leyti var hann að ljúka við 6. sinfóníu sína, fagurt og friðsælt verk sem hefur á köflum yfirbragð þjóðlaga og sálmasöngs. Stjórnandinn John Storgårds var um langt skeið aðalstjórnandi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Helsinki og er einmitt margverðlaunaður fyrir túlkun sína á sinfóníum Sibeliusar. 

 

Sækja tónleikaskrá