EN

Hetjulíf

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
31. mar. 2022 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 – 8.500 kr.

Ein Heldenleben eða Hetjulíf eftir Richard Strauss er eitt stórbrotnasta tónverk síðrómantíkur, samið fyrir risavaxna hljómsveit sem telur um hundrað manns. Verkið er eins konar lýsing á lífi tónskáldsins sjálfs, sem skorti sannarlega ekki sjálfstraust. „Ég er allt eins jafn áhugaverður og Napóleón,“ ku hann hafa sagt við franska rithöfundinn Romain Rolland. Í verkinu glímir Strauss við andstæðinga sína en hefur betur að lokum, stendur uppi sem sigurvegari og dregur sig í hlé frá skarkala heimsins.

Stefan Dohr hefur verið kallaður „konungur hornsins“ enda var hann ekki nema 25 ára þegar hann var valinn í stöðu fyrsta hornleikara í Fílharmóníusveit Berlínar. Þar hefur hann starfað frá árinu 1993 og er ekki ofsögum sagt að hann sé goðsögn meðal málmblástursleikara. Auk þess að starfa með einni fremstu hljómsveit heims er Dohr einnig eftirsóttur einleikari. Á Íslandi leikur hann hinn glæsilega hornkonsert nr. 2 eftir Strauss, saminn í Vínarborg árið 1942, eins konar kveðjuóður til gullaldar sem var að líða undir lok.

Tónleikarnir hefjast á verki eftir George Walker, sem var fyrsta svarta tónskáldið til að hljóta hin virtu Pulitzer-verðlaun í tónlist. Kunnasta tónsmíð hans er hið undurfagra Lyric fyrir strengjasveit sem er innileg og tilfinningaþrungin hugleiðing, samin árið 1946 og tileinkuð ömmu tónskáldsins, sem upplifði sjálf þrældóm í æsku.

Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Juanjo Mena, sem hleypur í skarðið fyrir Evu Ollikainen vegna forfalla.

Sækja tónleikaskrá