EN

Lisiecki spilar Schumann

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
18. okt. 2018 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.500 - 7.800 kr.
  • Efnisskrá

    Olivier Messiaen Les offrandes oubliées
    Robert Schumann Píanókonsert
    Josef Suk Ævintýri (Pohádka)

  • Hljómsveitarstjóri

    Bertrand de Billy

  • Einleikari

    Jan Lisiecki

Tónleikakynning » 18. okt. kl. 18:00

Kanadíski píanistinn Jan Lisiecki er rétt rúmlega tvítugur en ferill hans spannar heilan áratug. Hann vakti heimsathygli þegar hann lék píanókonsert Chopins á Chopin-hátíðinni í Varsjá árið 2008, tólf ára gamall, og sama ár lék hann í fyrsta sinn í Carnegie Hall. Tveimur árum síðar var hann kominn með samning hjá Deutsche Grammophon og síðan hefur hann leikið með flestum helstu hljómsveitum heims. Hann var valinn Ungi listamaður ársins á Gramophone-verðlaununum 2013 og sama ár hlotnuðust honum verðlaun kennd við Leonard Bernstein. Hér leikur hann hinn undurfagra og rómantíska píanókonsert Schumanns, en hljóðritun Lisieckis á verkinu kom út árið 2016 og hefur hlotið frábæra dóma.

Franski hljómsveitarstjórinn Bertrand de Billy þykir sérlega innblásinn stjórnandi og stýrði nýverið rómaðri uppfærslu af Toscu við Metropolitan-óperuna í New York. Mörgum er enn í fersku minni þegar hann stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói vorið 2011 og Isabelle Faust lék fiðlukonsert Beethovens. Nú snýr de Billy loks aftur til Íslands með tvö hrífandi en sjaldheyrð verk í farteskinu. Olivier Messiaen var eitt trúræknasta tónskáld 20. aldar og hér hljómar eitt af hans fyrstu hljómsveitarverkum, Les offrandes oubliées (Gleymdar fórnargjafir) frá árinu 1930. Tékkneska tónskáldið Josef Suk var tengdasonur Dvořáks og samdi rómantíska tónlist sem stundum minnir á Richard Strauss. Pohádka eða Ævintýri er litrík og glæsileg hljómsveitarsvíta sem þykir hans besta verk og hljómar nú á Íslandi í fyrsta sinn. 

Sækja tónleikaskrá